138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

búferlaflutningar af landinu.

[13:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég hef sannarlega tekið eftir þeim tölum sem hv. þingmaður nefndi varðandi búferlaflutninga en það skiptir líka máli að greina þá rétt. Það er vissulega rétt að talan er rúmlega 4.800 þar sem fleiri hafa farið frá landinu en til landsins en við verðum líka að athuga að um helmingur þeirra eru útlendingar og atvinnulífið hefur byggst mikið á útlendingum (Gripið fram í.) á undanförnum árum. Ef við tölum um að þessi 4.800 séu um 1,5% af mannfjöldanum eru þarna um 0,7% útlendingar sem hverfa til síns heima. Engu að síður er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun og ríkisstjórnin vinnur allt hvað hún getur til að koma í veg fyrir það að Íslendingar sjái ástæðu til að flytja héðan búferlum.

Ég minni á, af því að hv. þingmaður spyr hvað sé verið að gera, að á síðasta ríkisstjórnarfundi var kynnt ítarleg áætlun um ýmiss konar framkvæmdir til að skapa störf. Ég er alveg sannfærð um að hún mun geta snúið þessari þróun við og sem betur fer sjáum við minna atvinnuleysi núna en spáð var og það er auðvitað jákvætt. En það skiptir máli að við vinnum áfram í þessari uppbyggingu til að skapa hagvöxt og það er mjög mikilvægt að við náum til lands í ýmsum þeim málum sem við höfum verið að vinna með eins og efnahagsáætlunina og lendingu í Icesave-málinu. Ef það gerist ekki erum við að tala um 2–2,5% meiri samdrátt í hagkerfinu, það þýðir tekjutap fyrir þjóðarbúið upp á 35–40 milljarða og það munar um minna. Við verðum að muna að hvert prósent í hagvexti skilar okkur 15 milljörðum og því er mjög mikilvægt að geta drifið hagkerfið áfram og keyrt áfram þá atvinnuuppbyggingu sem við höfum lagt grunn að.