138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er fróðlegt í þessu sambandi að rifja upp horfurnar eins og þær voru í hruninu í árslok 2008 og byrjun árs 2009 og bera svo saman við hvar við hvar erum á vegi stödd og hvernig árið 2009 kom út í reynd. Þá var verið að spá 10–12% atvinnuleysi og 10–12% samdrætti landsframleiðslu. Svartsýnisspár, jafnvel svo seint sem í kosningabaráttunni í aðdraganda kosninga 2009, gengu út á það að hér yrði jafnvel komið 20% atvinnuleysi á þeim vetri sem við nú lifum ef vetur skyldi kalla, því að tíðarfarið hefur nú verið gott. Útkoman, niðurstaðan af árinu 2009, stefnir í að verða sú að samdráttur landsframleiðslu verði ekki þó nema 7,5–7,7%, sem sagt ekki nema lítillega yfir meðaltali Evrópusvæðisins, að atvinnuleysið endi í u.þ.b. 8% að meðaltali á árinu í staðinn fyrir 10–10,5% eins og spáð var. Vextir nú undir lok ársins og eftir ákvörðun í janúar eru komnir niður fyrir töfratöluna 10%, stýrivextirnir, verðbólga er um 7% og á niðurleið. Í það heila tekið gekk árið 2009 betur en allar spár gengu út á langt fram eftir árinu. Það tókst með öðrum orðum betur að fleyta þjóðarbúinu og hagkerfinu í gegnum öldudalinn en menn þorðu að vona í byrjun síðasta árs.

Því miður eru horfur nú á hinn bóginn óvissari og spár fara nú aftur versnandi eins og samanburður á spám frá því í nóvember annars vegar og nú í janúar hins vegar sýnir, þar sem spáð er t.d. a.m.k. 1% meiri samdrætti landsframleiðslu á þessu ári í janúar en gert var í nóvember. Og það er hætta á því, sem verður að horfast í augu við, að ákveðin kólnun fari aftur af stað í hagkerfinu eins og minni veltutölur núna á fyrstu vikum ársins benda til þegar bornir eru saman janúarmánuður 2009 og janúarmánuður 2010, í staðinn fyrir að á síðustu mánuðum síðastliðins árs var þetta öfugt. Allt bakslag í viðsnúningi hagkerfisins verður okkur ákaflega dýrkeypt og ekki síst fyrir ríkissjóð, því að það er auðvelt að umreikna yfir í minni tekjur og meiri útgjöld hvert prósent í samdrætti landsframleiðslu eða í auknu atvinnuleysi. Við skulum samt ekki missa sjónar á því sem þrátt fyrir allt er þó gott að gerast.

Fyrir skemmstu tilkynnti fyrirtækið Actavis um að það mundi auka framleiðslu sína um 50% hér á landi og ráða 50 nýja starfsmenn.

Útflutnings- og samkeppnisfyrirtæki eins og Marel og Össur og fleiri slík meta nú kosti þess að efla á nýjan leik framleiðslu hér heima í staðinn fyrir að uppbygging þeirra var á undanförnum árum að mestu leyti erlendis.

Fyrirtækið Promens á Dalvík lifði sitt besta rekstrarár á síðasta ári. Þar var unnið margar helgar í röð til viðbótar fimm daga þrískiptum vöktum allan sólarhringinn. (Gripið fram í: Aldrei svíkja Dalvíkingar.) Nei, Dalvíkingar leggja sitt af mörkum.

Tölvuleikjafyrirtækið CCP hefur tilkynnt að það muni ráða 150 nýja starfsmenn á næstu 12–18 mánuðum og þar af alla þá á Íslandi sem þeir fá til starfa, eftir að hafa bætt við 90 starfsmönnum á síðasta ári. (Gripið fram í.)

Sólarkísilverksmiðja í Þorlákshöfn var til umræðu í gær. Þar eru um yfir 160 milljóna evru fjárfestingu að ræða, 350–400 manns mundu fá störf á byggingartíma og síðan 160 starfsmenn eftir það. (Gripið fram í.)

Á Akureyri er að byggjast upp aflþynnuverksmiðja. Þar er nú þegar 50 menn við störf og fer fjölgandi og áform um stækkun verksmiðjunnar eru þegar í gangi.

Nýlega var undirritað samkomulag milli Akureyrarbæjar og tengdra aðila um undirbúning koltrefjaverksmiðju á staðnum.

Landsvirkjun er nú að bjóða út fyrsta áfanga Búðarhálsvirkjunar og stendur fyrir þeim framkvæmdum sjálf til þess að virkjunin geti orðið á áætlun og tefjist ekki, jafnvel þó að ekki sé búið að ganga frá samningum um orkusöluna.

Orkuveita Reykjavíkur er sömuleiðis að reyna að fjármagna sínar framkvæmdir, en í báðum tilvikum tilgreina forsvarsmenn fyrirtækjanna hið óleysta Icesave-mál sem hindrun í vegi þess að klára fullnægjandi fjármögnun.

Í gær var opnuð hönnunarsamkeppni að tilboði í hönnun nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss þar sem er um risavaxið verkefni að ræða upp á um 2.600 ársverk á fjögurra, fimm ára tímabili þegar að framkvæmdum kemur.

Ný lög um sprotafyrirtæki hafa sannarlega hreyft auknum krafti í þá starfsemi. Ferðaþjónustan á í vændum sitt besta ár sögunnar. Allar bókanir vísa til þess. Sætaframboð til Íslands í flugi verður meira en nokkru sinni á þessu ári. Þýsk og austurrísk flugfélög munu bætast við þau sem áður hafa flogið til Íslands yfir sumartímann. Næsta sumar verða 5 þúsund sæti í boði milli Þýskalands og Íslands á viku hverri. Þannig mætti lengi áfram telja.

100% endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna endurbóta á húsnæði hefur leitt til þess að nú eru meiri umsvif í þeirri grein en voru áður, þrátt fyrir almennan samdrátt í samfélaginu.

Ég gæti haft þennan lista talsvert lengri, frú forseti, til þess að fara yfir það að þrátt fyrir allt er mjög margt gott að gerast í erfiðleikunum. Það er augljóslega að eiga sér stað ákveðin tilfærsla í íslensku atvinnulífi, þróun og aðlögun að breyttum aðstæðum sem sýnir sköpunarkraft og aðlögunarhæfni hagkerfis okkar og atvinnulífs þrátt fyrir þá erfiðleika sem við er að glíma. Það er enginn minnsti vafi á því í mínum huga að væri nú að baki farsæl lausn Icesave-málsins og helst fyrir mörgum, mörgum mánuðum síðan, væri nú vaxandi bjartsýni á að viðsnúningur hagkerfisins á þessu ári yrði ekki bara að veruleika, heldur kröftugri en menn gátu áður gert sér vonir um.