138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki legið á heimasíðu Vinstri grænna meira en góðu hófi gegnir fyrir þingmann Sjálfstæðisflokksins. Engu að síður hef ég gluggað í sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna sem hv. þingmaður vísar jafnan til þegar hann talar um sjávarútvegsmál, m.a. á fundum með aðilum í greininni, t.d. á fundi í Vestmannaeyjum sem hv. þingmaður vísaði til áðan í ræðu sinni.

Er það réttur skilningur hjá mér að fyrningarleiðin falli ekki að þeirri sjávarútvegsstefnu sem Vinstri grænir kynna á heimasíðu sinni? Er það rétt hjá mér að skötuselsákvæðið umdeilda og margumrædda sé ekki í anda sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna? Ég kasta boltanum (Gripið fram í.) til baka þar sem hv. þingmaður náði ekki að svara seinni spurningu minni í andsvari sínu áðan.

Jafnframt ítreka ég spurningu mína um Suðurkjördæmi sem hv. þingmaður náði ekki að svara mér um áðan í hinum örstutta tíma sem okkur þingmönnum veitist til andsvara.