138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

aðildarviðræður við ESB -- skuldaaðlögun fyrirtækja -- stjórnsýsluúttektir.

[13:47]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna tillögu frá hv. þm. Skúla Helgasyni varðandi útfærslu á sértækri skuldaaðlögun fyrirtækja. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að ekkert sé hægt að gera til að koma í veg fyrir að útrásarvíkingar eignist aftur fyrirtæki sín. Ég tel reyndar að vandamálið sé miklu frekar það að pólitíska stefnumótun vanti varðandi sértæka skuldaaðlögun fyrirtækja. Bankarnir hafa tjáð viðskiptanefnd að þeir hafi bara fengið tilmæli frá ríkisstjórninni um að hámarka virði eigna bankanna, sem þýðir á mannamáli að þeir muni taka hæstum tilboðum í eignir fyrirtækja eins og rekstrarfélagið Haga. Mér finnst reyndar undarlegt að hluthafar í gjaldþrota eignarhaldsfélagi eins og 1998 skuli geta gert hátt tilboð í rekstrarfélagið Haga en það er mál dómskerfisins að skoða það.

Frú forseti. Það er sannfæring mín að við þurfum að setja pólitíska stefnu á sértæka skuldaaðlögun og gefa með henni fyrirmæli um að eigendum fyrirtækja sem eru núna í þroti verði ekki veittur forkaupsréttur eins og er í tilfelli Haga. Auk þess vil ég gera þá kröfu til bankanna að þeir láti gera álagspróf á fyrrverandi eigendum bankanna þar sem m.a. er metið út frá viðskiptasögu þeirra hversu miklar líkur eru á að þeir keyri fyrirtæki í þrot.