138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

179. mál
[14:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra kærlega fyrir greinargóð svör og yfirferð. Ég held að það sé mjög gott að við fylgjumst mjög vel með þessum málaflokki, því að ungmennin eru okkar mesta auðlind og það að hafa þau án virkni er skelfilegt og við megum í raun og veru alls ekki láta það gerast.

Ég sé að það er mjög margt í gangi, ég var reyndar búin að kynna mér það aðeins inni á síðunni island.is þar sem maður getur fylgst mjög vel með því sem er að gerast. Ég vildi bara aðeins spyrja hæstv. ráðherra um hvort þessi úrræði séu ekki örugglega í gangi um land allt, ég veit að ákveðnir tilraunaskólar eru í gangi en mig langar til að vita hvort þeir séu ekki dreifðir um landið. Eins hef ég áhuga á því að heyra hvort það unga fólk sem hefur áhuga á að fara í hefðbundið framhaldsskólanám og hefur verið á atvinnuleysisbótum, fái einhvern fjárhagslegan aðlögunartíma þannig að það haldi atvinnuleysisbótunum alveg eða að hluta til einhvern tíma meðan þau eru að fóta sig í skólakerfinu að nýju.

Ég legg áherslu á að megum ekki láta þennan mannauð okkar liggja og horfa upp í loftið eða vera í tölvunni eða horfa á sjónvarpið lengur en einhvern örlítinn tíma, við verðum að draga þau til ákveðinnar virkni því að annars getur orðið svo hræðilega erfitt fyrir þau að komast af stað á nýjan leik.