138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

ólöglegt niðurhal hugverka.

162. mál
[14:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að vekja máls á þessu máli, sem hefur kannski ekki verið mikið til umræðu í þessum sal, en hefur verið áberandi í stjórnmálaumræðu til að mynda hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum og verið til umræðu á þeim vettvangi, á norrænum vettvangi, hvernig megi bregðast við þessari þróun sem hv. þingmaður lýsti í sinni fyrirspurn, þ.e. við sjáum breytt viðhorf yngri kynslóða sem hafa tekið tæknina í sína þjónustu og nýta hana í auknum mæli til að hala niður tónlist og kvikmyndum og öðru efni.

Spurt er hvort ráðherra hafi látið kanna umfang ólöglegs niðurhals hugverka. Því er til að svara að það eru ýmsir opinberir aðilar sem fylgjast bæði með netnotkun og netumferð þó að þeir heyri ekki sérstaklega undir ráðuneyti mennta- og menningarmála, en hins vegar höfum við aðgang að ýmsum upplýsingum. Það eru ýmsar leiðir færar til að meta umfang ólöglegrar dreifingar.

Í fyrsta lagi liggja fyrir upplýsingar um netumferð, þ.e. mælt gagnamagn sem er sent og móttekið hjá íslenskum notendum netsins hjá hverjum netþjónustuaðila fyrir sig. Þeim upplýsingum er safnað á miðlægan hátt hjá Internet á Íslandi, ISNIC, sem rekur íslensku netumferðarmiðstöðina Reykjavík Internet Exchange, sem kölluð er RIX, þar eru þessar upplýsingar birtar á myndrænan hátt í síriti, þannig að þar hefur hið opinbera fylgst með netumferðinni. Í þeim tilvikum sem lögregla hefur haldlagt netþjóna hjá milliliðum sem eru grunaðir um ólöglega dreifingu efnis á netinu og þegar lagt hefur verið lögbann við starfsemi slíkra aðila hefur í kjölfarið dregið úr umferð um Reykjavík Internet Exchange um allt að 40%, sem er auðvitað ákveðin vísbending.

Á alþjóðlega vísu er talið að næst á eftir umferð sem leiðir af notkun vinsælla afþreyingarvefja eins og YouTube og MySpace og fleiri slíkra, sé umferð vegna BitTorrent skráarskiptatækninnar á bilinu 25–50% af allri netumferð til og frá einstökum löndum. Það er hins vegar ekki hægt að draga þá ályktun að allt að helming allrar netumferðar í heiminum megi flokka sem ólöglega dreifingu höfundarvarins efnis þrátt fyrir þessa tölu, því seljendur kvikmynda og hugbúnaðar, sem afhenda sínar afurðir með löglegum hætti, þannig að fólk geti hlaðið þeim niður heima hjá sér, nýta líka BitTorrent-tæknina, jafnframt því sem opnum og ókeypis hugbúnaði er dreift með þessari aðferð. Þetta er ein vísbending sem við höfum.

Í öðru lagi hafa útgefendur og rétthafar tónlistar, myndefnis og hugbúnaðar ráðið í sína þjónustu sérhæfða rannsóknaraðila sem fást eingöngu við að kanna umfang ólöglegrar dreifingar höfundarvarins efnis, bera kennsl á notendurna sem það gera og koma slíkum upplýsingum áleiðis til netþjónustuaðila og eftir atvikum réttarvörsluaðila. Útgefendur og fulltrúar rétthafa hafa ekki verið fúsir til að láta opinbera umræddar rannsóknaraðferðir eða niðurstöður þeirra að öðru leyti en með almennum upplýsingum um hlutföll ólöglegs niðurhals á móti löglegri þjónustu.

Í þriðja lagi liggja fyrir mjög ítarlegar upplýsingar um niðurhal, efni sem miðlað er og þátttakendur í því í fjarskiptakjarna íslenskra netþjónustuaðila, enda ber þeim að geyma slíkar upplýsingar í sex mánuði. Sú regla styðst við 15. gr. tilskipunar ESB um friðhelgi einkalífs og rafræn fjarskipti. Netþjónustuaðilum eru þröngar skorður settar samkvæmt tilskipuninni varðandi afhendingu persónuupplýsinga í fjarskiptum, þær verða því ekki látnar af hendi til annarra en lögreglu með dómsúrskurði.

Í fjórða lagi má benda á að Hagstofa Íslands hefur árlega safnað upplýsingum um tölvu- og netnotkun heimila og gefið út í riti sem nefnist Notkun heimila og einstaklinga á tölvum og neti . Í slíku riti frá árinu 2009, sem eru kannski nýjustu upplýsingarnar og byggja bara á hefðbundinni könnun og komu út 7. október síðastliðinn, segir, með leyfi forseta:

„46% netnotenda höfðu notað netið til að spila eða hlaða niður tónlist, leikjum eða myndum. 38% netnotenda höfðu pantað eða keypt tónlist og kvikmyndir á netinu og það er veruleg aukning frá fyrstu mælingum árið 2004, þegar 25% notenda notuðu netið í þessu skyni.“

Eins og greina má af þessum upplýsingum eru ýmsar aðferðir til staðar, en erfitt kannski að fá heildarmynd. Við sjáum hins vegar að við getum dregið þá ályktun að allt frá fjórðungi og upp í 40% netumferðar snúist um niðurhal, hins vegar er ekki alltaf gott að greina á milli hvort það er ólöglegt eða löglegt. Við eigum hins vegar mjög gott samstarf við Samtök útgefenda og rétthafa, bæði við að endurskoða íslensk höfundalög og síðan við samráðsnefnd rétthafa og stjórnvalda til að sporna við ólöglegri niðurhalsstarfsemi.

Ég fæ kannski að koma aðeins nánar að þeirri vinnu í seinna innleggi mínu hér á eftir. En liður í endurskoðun höfundalaga verður m.a. að kanna möguleikann á því að fá netþjónustuaðila til samstarfs við útgefendur og fulltrúa rétthafa til að greina þessar upplýsingar betur.