138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

73. mál
[12:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um að stofna ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum. Meðflutningsmenn að þessari tillögu ásamt flutningsmanni og talsmanni hennar, Eygló Harðardóttur, eru þingmenn úr öllum flokkum nema þingflokki Vinstri grænna. Eftir viðbrögð hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan geri ég mér miklar vonir um að hv. þm. Eygló Harðardóttir sem flytur þessa tillögu hér í þriðja sinn þurfi ekki að gera það aftur, heldur hljóti hún þá meðferð í þinginu sem ætla mætti af þeim stuðningi sem búið er að lýsa yfir við hana. (Gripið fram í.)

Það kannski segir allt um þessa tillögu að 12 umsagnir bárust um hana og þær voru allar jákvæðar. Það var hvatt til þess að þetta mál næði fram að ganga. Það kemur líka fram í greinargerð með henni að á árinu 2008 voru 750 fyrirtæki gjaldþrota, en samkvæmt spá frá Creditinfo er gert ráð fyrir að það verði 3.500 fyrirtæki á þessu ári. Við sjáum öll í raun og veru þörfina fyrir þetta þarfa mál hér.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur munu kannski fyrst og fremst lítil og meðalstór fyrirtæki geta nýtt sér þetta. Það er mjög dýrt að leita úrlausna sinna mála þegar menn komast í greiðsluörðugleika og stefna í þrot en það er ekki vandamál hjá stóru fyrirtækjunum þannig að þetta mun fyrst og fremst nýtast einyrkjum og minni fyrirtækjum.

Ég held líka, virðulegur forseti, að þessi tillaga gæti orðið til þess að við mundum auka gegnsæi við þá endurskipulagningu á fyrirtækjunum sem er fram undan. Þá fara menn kannski inn á stærri vettvang. Það er mjög hætt við því að þessi sértæku úrræði sem núna gilda séu gróðrarstía spillingar vegna þess að það er ekki sama hvort menn eru Jón eða séra Jón. Það er komið undir viðkomandi lánastofnun hvernig hún meðhöndlar fyrirtækin. Mér hefur fundist algjörlega ótækt hvað lánastofnanir mismuna. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að menn fengju sams konar úrræði hver sem á í hlut.

Þegar maður hugsar til baka í þeirri stöðu sem íslensk þjóð er í núna og hvað við erum búin að fara í gegnum er dálítið merkilegt að ekki er hægt að fá upplýst um afslátt krafnanna milli gömlu og nýju bankanna. Gamli bankinn lætur kröfur eins og húsnæðislán heimilanna yfir í nýja bankann með ákveðnum afföllum og við getum ekki fengið staðfest með hvaða afföllum. Mér finnst það algjörlega óviðunandi. Ég sagði úr þessum stól við umræðuna sem varð hér í gær að þetta fyndist mér að ætti að vera uppi á borðunum. Við þurfum að breyta viðmiðunum svo menn geti ekki falið sig á bak við þessa bankaleynd. Við verðum að breyta því. Auðvitað á það sem er afskrifað milli nýja og gamla bankans að ganga til þeirra sem eru með lánin. Margar fjölskyldur í landinu voru með húsnæðislánin sem breyttust á einum degi, tvöfölduðust, fólk átti kannski eignir upp á 30 millj. kr., skuldaði 20 millj. kr. og var með allt sitt á hreinu, bara venjulegt fjölskyldufólk. Síðan gerist hvað? Bankahrunið verður, lánin tvöfaldast og síðan kemur eignarýrnun á móti. Þetta fólk er í miklum vandræðum og er að lenda á götunni með öllum þeim hörmungum sem því fylgir.

Það er mjög sérkennilegt að núna skuli sömu starfsmenn bankanna sem fengu bónusa fyrir að lána þessum fjölskyldum peningana sitja í sömu stólunum, þeir fá bónusa í dag ef það getur endurheimt meira upp í kröfurnar hjá nýja bankanum miðað við það sem þeir tóku þær á af gamla bankanum. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þetta geti orðið til þess að hinir ágætu starfsmenn bankanna muni ganga stífar fram en ella af því að það er bónushvetjandi fyrir þá að innheimta frekari skuldir og hugsanlega meira en fjölskyldurnar geta borgað. Þetta er mjög sérkennilegt eftir allt sem við höfum gengið í gegnum svo ég taki bara mjög vægt til orða. Það er með ólíkindum að þetta skuli vera gert.

Síðan langar mig líka örlítið að koma inn á það að nú eiga úrlausnirnar fyrir fjölskyldurnar að vera þannig að fjölskyldurnar verða fyrst að lenda í vandræðum þó að það sé fyrirséð að ákveðnar fjölskyldur muni lenda í vandræðum, eru búnar að missa vinnuna, missa tekjurnar og sjá fram á að eftir ákveðinn tíma, 1–3 mánuði, verði þær komnar í vanskil. Nei, þá eru úrræðin þannig að fyrst verður fólk að lenda í vanskilunum og síðan leita úrræðanna.

Úrræðin eru því miður oft og tíðum þannig, bæði hjá fjölskyldunum og fyrirtækjunum, að þeir sem hafa farið óvarlegast og hagað sér verst fá bestu lausnirnar. Þar getum við alveg tekið með þessa 110% leið, hvort heldur hjá fyrirtækjunum eða einstaklingunum. Í fyrirtækjunum geta menn t.d. komið inn með eigið fé miðað við eignirnar, við getum sett þetta í smásamhengi, fyrirtæki sem skuldar 1 milljarð kr. og á eignir upp á 900 millj. kr. kemur með nýtt eigið fé upp á 90 millj. kr. og fær afskrifaðar 10 millj. kr. Annar aðili sem hefur hagað málum sínum mjög óábyrgt og skuldar kannski 2 milljarða kr. en er með sömu eignirnar og fær við sömu aðgerð felldan niður 1 milljarð kr.

Þess vegna segi ég að þetta kerfi með þessum sértæku úrlausnum er gróðrarstía spillingar. Ég velti því bara fyrir mér, virðulegi forseti, hvort við höfum ekki lært neitt af þessu hruni sem var hér haustið 2008. Það er algjörlega með ólíkindum að þetta skuli vera svona í dag.

Síðan langar mig líka að koma aðeins inn á annað um það þegar fjölskyldurnar í landinu og lítil og meðalstór fyrirtæki tóku þessi lán í erlendri mynt. Hvað er síðan að koma í ljós og á eflaust eftir að koma í ljós? Að sömu aðilarnir og lánuðu þessum fjölskyldum sem eru núna að lenda í miklum vandræðum og öllum þeim hörmungum sem því fylgja, bæði félagslegum og öðrum, tóku stöðu gegn krónunni, felldu gjaldmiðilinn og komu fjölskyldunum í þessi vandamál. Sömu aðilarnir eru að rukka fjölskyldurnar í dag og fá fyrir það greidda bónusa.

Ég velti því bara fyrir mér, virðulegi forseti: Er þetta það sem við vorum að kalla eftir? Þetta er ekki það sem ég gerði mér vonir um að yrði gert.

Hvers vegna má ekki taka gengistryggðu lánin og færa þau? Það er ein hugmynd, ég er ekkert að segja að hún sé endilega sú besta, að taka gengistryggðu lánin og færa þau til þess dags þegar þau voru tekin, gengið yrði bara fært til upphafsdagsins, 1. janúar 2005 eða 1. janúar 2007 eða hvenær sem lánið var tekið, og það reiknað yfir í íslenskt. Lánið bæri þá þær verðbætur og þá vexti sem legðust á þau lán miðað við að það hefði verið íslenskt. Hver er ástæðan fyrir því að ég segi þetta, virðulegi forseti? Hún er sú að þeir sem lánuðu fjölskyldunum í landinu þennan pening eyðilögðu krónuna. Þeir tóku stöðu gegn krónunni og felldu hana. Hvert er réttlætið í því? Síðan gætu menn nýtt það svigrúm sem er í afskriftasjóðum bankanna til að leiðrétta og koma fjölskyldunum til hjálpar.

Að lokum, virðulegi forseti, tek ég undir það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði hér í gær: Það vantar pólitíska leiðsögn í þessu máli. Það er kallað eftir henni. Menn fela sig á bak við það. Það er mjög mikilvægt að það verði gert. Það vantar pólitíska leiðsögn. Því miður verður nú hæstv. ríkisstjórn að fara að gera eitthvað í þeim málum en láta ekki allt sigla í strand eins og hún er að gera, það er ekki búið að gera nægilega mikið fyrir fjölskyldurnar í landinu og ekki heldur litlu og meðalstóru fyrirtækin. Við verðum að fara að læra af því sem hefur verið gert og ræða þetta af yfirvegun og hætta því að vera í einhverjum pólitískum skotgröfum með þessi mál. Fjölskyldurnar í landinu geta ekki beðið lengur eftir þeim úrlausnum sem verða að koma til.

Að lokum vil ég segja þetta, virðulegur forseti: Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga til þingsályktunar nái fram að ganga núna í þriðja tilraun.