138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er þetta ekki þekkt hjal? Efnahagshrunið í boði sjálfstæðismanna. Já, ætli við eigum bara ekki sök á efnahagshruninu um allan heim, við sjálfstæðismenn? Ja, mikill er máttur okkar. (Samgrh.: Hægri menn.) Hæstv. ráðherra virðist alveg vera búinn að gleyma því hver sat með okkur í ríkisstjórn á þessum tíma. Það hentar honum ekki í dag. Hann var brosandi þá.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt til efnahagstillögur sem eru mjög raunhæfar og hafa allt aðra nálgun á þessi mál en aðgerðir ríkisstjórnarinnar með þessari gríðarlegu aukningu skatta. Þær fjölluðu um að taka séreignarlífeyrissparnaðinn og innleysa þann skatt sem þar er geymdur og þjóðin á og ríkisstjórnin hefur heimilað og hvatt almenning til að fara í. Hæstv. fjármálaráðherra sagði frá því í dag að tekjur ríkissjóðs væru að dragast saman. Það kemur okkur sjálfstæðismönnum ekki á óvart. Það er afleiðing skattastefnu ríkisstjórnarinnar, ekkert annað. Í efnahagstillögum okkar var líka reiknað með því að framkvæmdastig mundi haldast áfram, að við mundum halda áfram þeim verkefnum sem voru á borðinu til að reyna að sprauta í atvinnulífið einhverri orku á þessum erfiðu tímum og helst þær greinar sem verst eru staddar.

Hitt er svo annað mál, virðulegi forseti, að hæstv. samgönguráðherra hafði ekki hlustað á ræðu mína. Hann kemur samt upp og gefur sér það sem hann var að tala um. (Gripið fram í.) Það er svolítið dæmigert fyrir þessa ríkisstjórn. Hún getur bara í eyðurnar. Ég las úr texta þingsályktunartillögunnar þar sem stendur:

„Markmiðið er að Ísland verði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum. Til þess að svo megi verða þarf að huga sérstaklega að hvernig hægt er að tryggja samkeppnishæfni landsins til lengri tíma.“

Engin ríkisstjórn, virðulegi forseti, hefur eyðilagt eins mikið af samkeppnishæfni og samkeppnisforskoti landsins sem það (Forseti hringir.) alveg klárlega hafði og þessi ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Það hefur enginn unnið annað eins skemmdarverk á íslensku atvinnulífi og þessi ríkisstjórn.