138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

aðild að Evrópusambandinu.

[15:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Framkvæmdarvaldið lýtur löggjafanum. Alþingi Íslendinga ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu og það var ákvörðun sem var tekin að undangengnum löngum og ströngum umræðum. Niðurstaðan varð sú að láta á það reyna. Það liggur ljóst fyrir þannig að það er alveg klárt að ríkisstjórnin framfylgir vilja Alþingis.

Ef sú staða kemur upp að Alþingi endurskoði afstöðu sína hefur það ákveðnar afleiðingar eins og hv. þingmaður hlýtur að skilja. Þinginu er algjörlega frjálst að leggja fram, rökræða og samþykkja hvaða tillögu sem það vill þannig að þetta er undir þinginu komið. Við erum að framfylgja ákvörðun þingsins.

Hv. þingmaður dró í efa að hér væri meiri hluti fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningar liggja fyrir. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega hv. þm. Ögmund Jónasson og að hann hefði ítrekað andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu. Má ég þá rifja upp fyrir hv. þingmanni að í sama viðtali sagði umræddur þingmaður það algjörlega skýrt að hann mundi hins vegar verja rétt Íslendinga til að fá sjálfir að taka afstöðu í atkvæðagreiðslu.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, eins og sakir standa hafa veður skipast í lofti varðandi Evrópusambandið. Ég tel og hef rökstutt það í þessum stóli að það stafi ekki síst af þeim deilum sem hafa spunnist millum okkar og annarra þjóða út af Icesave. Ég bendi samt sem áður á að af þeim 18 skoðanakönnunum sem Samtök iðnaðarins hafa látið gera á umliðnum árum hefur verið meiri hluti fyrir aðild í öllum nema tveimur. Í þeirri könnun sem hv. þingmaður vísaði til og var gerð á vegum Samtaka iðnaðarins kom líka alveg skýrt fram að það var sterkur meiri hluti meðal þeirra sem tóku þátt í þeirri könnun fyrir því að skipta um gjaldmiðil. (Forseti hringir.) Hvernig eigum við að gera það með öðrum hætti en að láta á þetta reyna?