138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:24]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít einmitt á það mál sem hv. þingmaður nefndi og er 1. flutningsmaður að, um frestun nauðungarsölu — þetta frumvarp sem hér er til umræðu varðar einungis lögheimili, eins og spurt var um, þannig að það frumvarp er í rauninni hrein viðbót við það mál sem hér er til umræðu. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þessi mál verði rædd saman ef vilji þingsins stendur til þess. Þetta eru ólík mál og þarna er í raun ekki um að ræða samkeppni um hversu langur fresturinn eigi að vera heldur sitt hvort málið.

Ég vil bæta við varðandi þennan lengri frest. Það getur verið að þeir sem eiga lögveð í fasteign gangi fyrir og njóti forgangs við nauðungarsölu. Þar eru m.a. kröfuhafar sem eru húsfélög og við höfum af því fregnir að einhver húsfélög gætu lent í stórkostlegum vandræðum ef þessi frestur verður mjög langur. Þess vegna er ágætt fyrir allsherjarnefnd, ef henni sýnist svo, að íhuga bæði kosti og galla og hvaða afleiðingar það hefur að hafa frestinn langan.

Hvað varðar frumvarpið um flýtimeðferð í lögum um breytingar á einkamálalögunum, frumvarpinu sem verður líka til umræðu á eftir, tel ég að þar séu líka ákveðin sjónarmið sem allsherjarnefnd getur rætt. Það er ekkert því til fyrirstöðu að ræða einmitt þá leið að hafa sérstaka flýtimeðferð.