138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:33]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Þetta mun vera í þriðja sinn sem frumvarp er lagt fram á Alþingi um frestun á nauðungarsölu. Fyrsta frumvarpið varð að lögum snemma árs 2009 og við afgreiðslu þess máls var því mjög haldið fram að þegar gripið sé til slíkra neyðaraðgerða sé það fyrst og fremst til að skapa skjól fyrir skuldara og þann vanda sem þeir standa frammi fyrir en einnig gefa ríkisstjórninni rými til að koma fram með nauðsynleg úrræði til að mæta þeim vanda sem skuldarar, eða íslensk heimili vil ég heldur segja, eru í.

Nú erum við í þriðja sinn með slíkt frumvarp fyrir framan okkur og þetta fer auðvitað til hv. allsherjarnefndar til meðhöndlunar. Það vekur þó mjög mikinn ugg í brjósti manns að sjá að nú ári síðar erum við með nákvæmlega sama úrræði fyrir framan okkur og við töldum vera tímabundið neyðarúrræði í upphafi árs 2009. Nú er lagt til að þetta ákvæði verði fellt úr gildi 31. ágúst 2010 og ég vona svo sannarlega að það verði ekki raunin að í lok árs 2010 eða í upphafi þings núna í september — hið síðara þing í september, ég er að tala um hálfan mánuð — eigum við von á fjórða frumvarpinu frá hæstv. dómsmálaráðherra um frestun nauðungarsölu hjá Íslendingum.

Hér er verið að skjóta vandanum á frest og það er mjög alvarlegt vegna þess að auðvitað safna þessar skuldir vöxtum allan þennan tíma og þetta mikla skjól sem reynt er að veita heimilunum getur snúist upp í andhverfu sína með mjög áþreifanlegum og stórhættulegum hætti. Undanfarna mánuði höfum við kallað eftir því að tillögur séu lagðar fram til að leysa vanda heimilanna og síðast í haust náðist um það samstaða á Alþingi, og Sjálfstæðisflokkurinn stóð að því, að smíða úrræði sem gagnaðist íslenskum fjölskyldum. Birtingarmynd þessa frumvarps er þó sú að það úrræði er alls ekki orðið nógu virkt eða hefur a.m.k. ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Við erum alltaf að tala um að ákveðinn hluti fjölskyldna sé í verulega miklum vanda og þetta úrræði beinist kannski fyrst og fremst að þeim fjölskyldum sem hafa verið í vanda í nokkurn tíma. Þar fyrir utan er stór hópur heimila sem sér fram á vaxandi vanda næstu mánuði og þau úrræði verðum við að fara að sjá koma fram.

Á vegum hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er nú starfandi nefnd sem fulltrúar allra flokka koma að og hefur það verkefni að skapa og smíða slík úrræði. Tíminn er því miður að hlaupa frá okkur og hæstv. dómsmálaráðherra getur í umboði sínu sem ráðherra einungis komið fram með frumvörp sem gagnast þeim eða eru til þeirra sem eru komnir mjög langt í skuldaferlinu, sem hafa skuldað í langan tíma og eru komnir inn í fullnustukerfið. Það er alveg sjálfsagt. Þar hafa menn verið að tala um að það þurfi að gera breytingar. Við höfum samþykkt lög t.d. um skuldaaðlögun til að reyna að forða fólki frá gjaldþroti, við samþykktum á síðasta ári að einstaklingar gætu leitað nauðasamninga til að komast hjá þeim ósköpum að verða gjaldþrota. Allt eru þetta úrræði sem nýtast fólki sem er komið mjög langt á skuldabrautinni en okkar vandi er sá að vaxandi hópur Íslendinga er ekki enn þá kominn yfir þessi 100% skuldamörk sem bankakerfið hefur núna boðað, svokallaða 110% leið. Sá hópur er ekki inni í því og þetta gagnast þeim ekkert. Stór hópur Íslendinga glímir við verulegar skuldir sem hann stendur samt sem áður undir og þarf ákveðið hlé á því. Þegar við núna erum komin með þennan nauðungarsölufrest í þriðja skiptið verð ég að hvetja ríkisstjórnina eindregið til að koma með úrræði sem nýtist þessum heimilum þannig að við munum ekki standa frammi fyrir því mánuð eftir mánuð að þurfa að breyta fullnusturéttarfarinu til að forða stórtjóni.

Það er ekki hægt að mæta vandanum á þessari hlið einvörðungu þó að sjálfsögðu sé, eins og ég sagði áðan, ástæða til að gera breytingar til að forða fólki frá þeim ósköpum að verða gjaldþrota. Gjaldþrotarétturinn var náttúrlega ekki hugsaður við þær aðstæður sem nú eru uppi hér, að á sumum stöðum sé annað hvert heimili komið í verulega erfiðleika. Það var ekki hugsað fyrir slíku hruni sem hér hefur orðið, að menn ættu á hættu að stór hluti Íslendinga kæmist í slíkt þrot að gjaldþrot blasti við. Í því efni er greiðsluaðlögunin mjög mikilvægt tæki til að forða þeim frá að verða gjaldþrota en ég segi það enn og aftur, þetta mál verður að snúast um að leita lausna sem gagnast fólki í þessum vandræðum, venjulegum Íslendingum sem lentu í þeim ósköpum að vera allt í einu orðnir stórkostlegir skuldamenn. Ég held að það sé enginn ágreiningur um það í þessum sal að til slíkra úrræða verður að grípa og mér liggur við að segja að það hefði verið gagnlegt að hafa hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra með okkur í dag til að fylgjast með þessari umræðu vegna þess að þetta er allt svo samtengt.

Ég er líka farin að halda að eins og stjórnkerfi okkar er uppbyggt hafi skuldir heimilanna — maður er í vandræðum með að sjá hvar það best á heima. Ég hygg að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ætti enn fremur að hafa töluverða aðkomu að því hvernig farið er með þessi mál vegna þess að vandinn sem íslensk heimili eru í er náttúrlega efnahagslegt vandamál. Þetta er ekki bara félagslegt vandamál eða vandamál hvað varðar fullnusturéttarfar eða dómsýslu. Þetta er efnahagslegur vandi sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. Ég hef haldið því fram og mun áfram halda því fram að þegar við förum í það, sem ég vonast til að verði sem allra fyrst, að grípa til aðgerða til að hleypa auknu súrefni inn í íslenskt atvinnulíf þá þurfum við auðvitað að hafa hraustar fjölskyldur til að taka þátt í slíku en ekki brotin heimili vegna stöðugs skuldavanda og þurfa síðan að horfa upp á það þegar nauðungarsölum er frestað að endalausir dráttarvextir leggist ofan á höfuðstól skulda. Í þessari umræðu vil ég brýna hæstv. ríkisstjórn til að snúa sér að þessu mikilvæga efni. Við í hv. allsherjarnefnd munum fara yfir þetta mál og sjá hvernig þetta mun allt líta út. Við sjálfstæðismenn höfum fram til þessa stutt frestun á nauðungarsölum en ég verð að segja alveg eins og er að það er ekki hægt að styðja það úti í það óendanlega án þess að úrræði séu í sjónmáli a.m.k. Ég held að það sé eitt albrýnasta verkefni þessarar ríkisstjórnar að snúa sér að því að koma fram með slíkar tillögur.