138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:41]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það þarf kannski í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp sem hér liggur frammi, frumvarp til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu. Eins og fram hefur komið í umræðum þeirra sem hafa talað á undan mér hefur þessi frestur verið framlengdur nokkrum sinnum og þá höfum við talað efnislega um þetta í þinginu. Gert er ráð fyrir að þetta mál fari til allsherjarnefndar á fund strax í fyrramálið og mín hugmynd um málsmeðferð er sú að þetta verði tekið hratt í gegnum nefndina og afgreitt inn til þingsins vonandi í þessari viku þannig að hægt verði að gera þetta að lögum fyrir mánaðamótin. Það er auðvitað mjög brýnt, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, að við klárum þetta mál hratt og örugglega.

Í mínum huga getur vel komið til greina að allsherjarnefnd geri einhvers konar breytingartillögu um að þessi frestur verði lengdur enn frekar. Ég vil bara nefna það í þessari umræðu, það er ekkert útilokað í þeim efnum. Það er auðvitað rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að framlengingin ein og sér kannski bjargar ekki öllu en hins vegar skiptir mjög miklu máli að þessi tími fáist núna á næstunni til þess að þeir aðilar og þær fjölskyldur sem eru með sín mál í meðferð hafi þá tíma og ráðrúm til að vinna úr sínum málum. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra þegar hún sagðist telja að ekki væru öll úrræði fullnýtt nú þegar. Ég held að það sé rétt.

Ég vil hins vegar nefna það að auðvitað eiga stjórnvöld á hverjum tíma alltaf að vera með í endurskoðun þau úrræði sem uppi eru hverju sinni eins og núna varðandi skuldamál heimilanna. Við vitum það og höfum fundið á undanförnum vikum og mánuðum að vandinn fer heldur vaxandi en hitt og hann er ekki að hlaupa frá okkur ef svo má að orði komast. Ég tel að stjórnvöld þurfi að fara í ákveðna endurskoðun á þessum úrræðum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að menn kortleggi hvaða fjölskyldur og hvaða einstaklingar hafa nýtt sér þessi sérstöku úrræði sem þó hafa verið í boði og hverjum þau hafa nýst. Ef í ljós kemur að þau dugi ekki einhverjum tilteknum hópum eða nái kannski yfir höfuð ekki þeim markmiðum sem stjórnvöld settu sér, þá eigum við að sjálfsögðu að vera fólk til að viðurkenna að þetta þurfi að endurskoða. Hugsanlega þurfa menn að koma fram með ný úrræði. Ég verð fyrsta manneskjan til að viðurkenna það og reyndar held ég, frú forseti, að hæstv. félagsmálaráðherra og gott ef ekki líka hæstv. forsætisráðherra hafi sagt allt frá því að þessi úrræði voru kynnt á sínum tíma að ef í ljós kæmi á einhverjum tímapunkti að þessi úrræði gögnuðust ekki mundu menn að sjálfsögðu setjast niður, endurskoða þau og koma með ný úrræði. Ég er ekki frá því að við séum í þeim sporum núna. Það breytir hins vegar ekki því að það er afar mikilvægt að þetta tiltekna frumvarp fái flýtimeðferð á þinginu og við afgreiðum þetta hratt og vel þannig að lögin geti tekið gildi. Miðað við þær dagsetningar sem hér eru uppi kann að vera óheppilegt að vera með þetta kannski hangandi yfir höfðinu á löggjafarþinginu næsta haust þegar þingið á að koma saman þannig að það getur vel komið til greina að þessum dagsetningum verði eitthvað hnikað.

Frú forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um þetta efnislega núna, svo oft sem þetta hefur verið rætt áður, en málið fer til allsherjarnefndar og ég geri ráð fyrir að mæla fyrir nefndaráliti nefndarinnar síðar í þessari viku.