138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[17:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þetta frumvarp. Ég tel það vera mjög brýnt og mjög mikilvægt. Afgreiðsla þess sýnir því miður ákveðið sleifarlag hjá nefndinni og hjá ríkisvaldinu að keyra ekki meira á þetta mál.

Fjöldi mála er mikill og flækjustigið og upplýsingarnar sem þarf að afla eru orðnar svo gífurlega miklar í dag að erfitt getur orðið að finna út úr því hvaða gerningum er ástæða til að rifta og oft þurfa menn að fara mörg þrep aftur á bak í fyrirtækjastrúktúr til að finna hvar uppspretta vandans er. Frestir til að rifta gerningum eru hins vegar yfirleitt veittir í þessum málum til að einhvern tíma sé hægt að klára þau og þegar búið er að klára þau geta menn sagt: Svona er þetta, þessi samningur og þessi gerningur stendur.

Þá kem ég að hinum endanum sem er því miður sá að í svona hruni og kreppum láta mannréttindi oft fyrst undan síga og menn þurfa að gæta alveg sérstaklega að þeim. Nú skulum við hugsa okkur og ég vil endilega undirstrika það, frú forseti, að ég er ekki að leggja það til en við skulum hugsa okkur að frestur sé þegar liðinn í einhverju ákveðnu máli hvort sem búið er að lýsa gjaldþroti eða ekki. Þeir sem eiga þá kröfu reikna með að hún sé orðin föst, þetta standi og þeir geti farið að vinna með það eins og annað. Nú er þessu allt í einu kippt í burtu með þessu frumvarpi. Þetta er svipað og ef menn breyttu umferðarlögunum og segðu: Það er leyfilegt að ganga yfir á rauðu en það er bannað að ganga yfir á grænu, líka í fyrra. Og réttarríkið er hrunið. Við þurfum að gæta alveg sérstaklega að þessu.

Ég vil endilega að þetta verði samþykkt sem fyrst. Menn þurfa að gæta alveg sérstaklega að afturvirkninni og ég skora á hv. nefnd að halda fund strax í kvöld og ræða þetta mjög ítarlega því að þessir frestir eru að líða núna.