138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:25]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir mjög áhugavert innlegg í þessa umræðu. Ég var um margt mjög sammála ýmsu sem hann sagði.

Það er eitt atriði sem ég vil gera að umtalsefni og hann nefndi í ræðu sinni, það var hvort fulltrúi almennings ætti að vera skipaður af Alþingi. Þingmaðurinn taldi að ef svo væri væri Alþingi, þingið sjálft, að hafa pólitíska skoðun á því eða skipta sér af störfum þessarar dómnefndar. Það kann vel að vera að það sé rétt, en hins vegar velti ég því upp hvaða aðili annar það ætti að vera sem væri til þess bær ef það væri ekki þingið. Ég held að það þurfi að hugsa það mjög vel. Í Danmörku er fyrirkomulagið við skipan dómara með mjög svipuðum hætti og hér er verið að leggja til, en þar eru tveir fulltrúar almennings, í sex manna dómnefnd í Danmörku. Í Danmörku er sex manna dómnefnd þar sem eru þrír dómarar, einn lögmaður og tveir fulltrúar almennings. Dómararnir eru tilnefndir af Hæstarétti, landsréttinum og danska dómarafélaginu, lögmaðurinn er tilnefndur af lögmannafélaginu, en fulltrúar almennings eru tilnefndir af sambandi sveitarfélaga og samráði um almannafræðslu, eins og stendur hér. Að sjálfsögðu höfum við hér á Íslandi samband sveitarfélaga. Við höfum ekkert sem heitir samráð um almannafræðslu eða einhver sambærileg samtök. Samband íslenskra sveitarfélaga er líka pólitísk samkunda, alveg eins og Alþingi. Ég sé því ekki alveg hvernig við komumst undan því að fá eitthvert apparat í samfélaginu til að tilnefna fulltrúa án þess að stjórnmál komi með einhverjum hætti þar að. Ég vil eiginlega inna hv. þingmann eftir því hvað hann sér fyrir sér í þessum efnum.