138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hv. þingmaður þarf ekki að efast um stuðning Framsóknarflokksins þegar kemur að málefnum stjórnlagaþings vegna þess að í kjölfar hrunsins og fjölmennasta flokksþings sem haldið hefur verið í 93 ára sögu Framsóknarflokksins var einmitt samþykkt að boða skyldi til stjórnlagaþings sem hefði átt að vera bindandi. Við reyndum að berjast fyrir því með kjafti og klóm, jafnvel fram á nætur, fyrir kosningarnar að koma því á en náðum því einfaldlega ekki í gegn vegna mikillar umræðu m.a. um fundarstjórn forseta í tengslum við umræðu um stjórnarskrármálin. Það þótti okkur miður en að sjálfsögðu munum við vinna að því að þjóðin fái að koma að því að móta framtíðarskipulag samfélagsins sem er sjálf stjórnarskráin og snertir þetta frumvarp sem við ræðum hér.

Auðvitað á almenningur að hafa um það að segja hvernig fyrirkomulag og skipulag dómstóla á að vera til lengri tíma litið. Það er upplagt núna þegar við horfum til framtíðar — við viljum jú horfa til framtíðar — að íslenskum almenningi, venjulegu fólki verði gefinn kostur á því að koma að slíkri mikilvægri vinnu sem ætti að fara fram á stjórnlagaþingi. Þess vegna fagna ég því að hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar, skuli tala fyrir því að stjórnlagaþingi verði komið á eins fljótt og verða má vegna þess að það eru væntingar úti í samfélaginu. Í raun og veru, ef við horfum til þjóðfundarins sem haldinn var á dögunum, eru heilmiklar hugmyndir úti í samfélaginu um það hvernig við eigum að móta nýtt Ísland og við eigum ekki að vera alráð í því á vettvangi þingsins. Við eigum að kalla til alla helstu aðila í íslensku samfélagi. Það er margt hæfileikafólk þarna úti sem við sáum á þjóðfundinum og vill koma að slíkri vinnu og Framsóknarflokkurinn vill flýta því.