138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

Vestfirðir sem vettvangur kennslu í sjávarútvegsfræðum o.fl.

114. mál
[17:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að taka málið upp og í rauninni standa fyrir því og ég þakka fyrir að fá tækifæri til að vera meðflutningsmaður á þingsályktunartillögunni og taka þátt í að móta málið að hluta.

Það sem skiptir máli einmitt núna þegar við erum að endurskoða samfélagsreksturinn í heild er að hafa skýr markmið og átta okkur á hvað við viljum verja og hverju við viljum halda. Augljóst er að í menntamálum þarf að forgangsraða og stilla mörgu upp á nýtt og þá er einmitt mjög mikilvægt að við nýtum okkur þá verkaskiptingu sem er nauðsynleg og reynum um leið að tryggja að ólík svæði verði byggð upp með tilliti til menntunar, hvort sem er á leikskóla- grunnskóla-, framhaldsskóla- eða háskólastigi. Það hefur sýnt sig á Vestfjörðum að sú uppbygging sem þar hefur átt sér stað í gegnum háskólasetrið hefur unnist mjög vel og ég held að við eigum að taka það aðeins lengra og reyna að skerpa fókusinn með því einmitt að fela því svæði ákveðin verkefni, beina verkefnum þangað og styrkja þannig byggðaþróunina á sama tíma.

Síðustu þrjár helgar hef ég sem þingmaður Norðvesturkjördæmis haft tækifæri til að taka þátt í þjóðfundum bæði í Bolungarvík, á Sauðárkróki og í Borgarnesi þar sem menn hafa í tengslum við Sóknaráætlun 20/20 sem kölluð er verið að reyna að móta framtíðarsýn. Þessir þjóðfundir hafa haft það hlutverk að reyna að skerpa fókusinn á hvert svæði fyrir sig og skoða hverjir styrkleikarnir eru, hverjir möguleikarnir eru, hver sérkennin eru og það er kannski fyrst og fremst það sem hefur verið horft til, í hverju felst sérstaða hvers svæðis fyrir sig. Það hefur einmitt verið mjög forvitnilegt að fylgjast með hversu ólíkt svæðin hafa verið metin — og þar er sérstaða Vestfirðinganna sjávarútvegurinn og raunar ferðaþjónustan í framhaldinu — og hvað þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Ef menn ætla að horfa til þess að verja byggðir á þessum svæðum verðum við að ná að auka fjölbreytnina en halda samt þeim grunni sem er eins og þessi sögulegi grunnur Vestfjarða er sem sjávarútvegssvæði. Ég treysti á að þessi tillaga sé einn liðurinn í því og við fáum að sjá fleiri tillögur þar sem menn þora að lyfta undir hugmyndir og verkefni sem tengjast ákveðnum málaflokkum fyrir ákveðin svæði.

Slíkt gerist ekki fyrirhafnarlaust og við höfum auðvitað tekið þátt í því sem þingmenn Norðvesturkjördæmis allir saman og þetta krefst þess líka að við vinnum að því að svæðið í heild verði samkeppnishæft, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir benti á áðan. Horfa þarf til samgangna á svæðinu, til háhraðanettenginga sem hafa verið á eftir á þessu svæði og til rafmagnsöryggis. Allt þetta hefur heldur verið á eftir á Vestfjörðum og til vansa á margan hátt hversu hægt hefur gengið að laga þessa hluti en það eru auðvitað mikilvægar forsendur að þetta verði með sambærilegu móti og best gerist í landinu til að menn geti byggt upp háskóla- og rannsóknastarf með fullnægjandi hætti.

Hér hefur líka verið nefnt að verið er að endurskoða háskólann og það er óhjákvæmilegt en ég held að við megum ekki detta í þann pytt að fara að færa alla háskóla inn á höfuðborgarsvæðið. Það er ekki sjálfsagt og eðlilegt, jafnvel þó að menn séu að telja fjölda skóla, að þetta verði allt við sömu flugbrautina og að tveir stærstu háskólarnir fari þá að sinna hvort sem það er ferðamennska í dreifbýli, hestamennska eða sjávarútvegur. Ég get ekki séð að Öskjuhlíðin eða Vatnsmýrin séu bestu svæðin til að sinna þessu. Með þá tækni sem við almennt höfum og þá möguleika að sinna námi og sækja bæði kennslukraft og þekkingu, þess vegna á milli landa eins og gert er í háskólum í dag, á ekki að vera mikið mál að halda úti sérhæfðum deildum hvort sem er í Háskólanum á Hólum, Landbúnaðarháskólanum eða í háskóla á Vestfjörðum þar sem málefni hafsins og rannsóknir þeim tengdum verða.

Ég kem hingað fyrst og fremst til að fagna þessari hugmynd og vekja athygli á að hún gæti orðið hluti af stærri mynd þar sem við þurfum að reyna að byggja upp eða verja landsbyggðina. Veruleg fækkun hefur orðið á fólki þessu svæði en ef menn ætla að stöðva þá þróun eða hægja mikið á henni þurfum við auðvitað að hlúa að svæðinu og gefa þeim aðilum sem þar búa ákveðin tækifæri.

Gefin hefur verið fölsk mynd af því að menn vilji ekki fara út á landsbyggðina, menn verði bara að horfast í augu við þann veruleika að menn vilji búa á höfuðborgarsvæðinu. Að mínu mati eru þetta alger ósannindi. Það hefur sýnt sig þar sem verkefni hafa verið færð út á land og við sjáum það ágætlega í Norðvesturkjördæmi, bæði verkefni sem hafa verið færð á Blönduós, á Hvammstanga og á Skagaströnd, að það hefur ekki skort fólk til að vinna á þessum stöðum. Það hefur líka tekist ágætlega að manna verkefni á Ísafirði í tengslum við háskólann þar. Þetta er meira spurning um að auka fjölbreytnina og gefa mönnum kost á að vera á þessum svæðum. Fjöldi fólks vill frekar búa úti á landsbyggðinni og það þarf að fá tækifæri til þess með því að færa verkefni þangað. Almennt er niðurstaðan sú að þar er stabílla starfsfólk, þar er fólk tryggara í vinnu, þar er ódýrara umhverfi á margan hátt en á höfuðborgarsvæðinu og við eigum auðvitað að nýta okkur það í sambandi við uppbyggingu á landinu í heild.

Ég fagna þessari þingsályktunartillögu og vona að við getum fylgt henni eftir með öðrum tillögum þegar menn fara að vinna þessa sóknaráætlun lengra og að við getum skerpt gildi hvers landshluta fyrir sig og lyft undir þau sérkenni sem eru á hverju svæði viðkomandi landsvæðum til framdráttar.