138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja að hv. 7. þm. Suðurlandskjördæmis Eygló Harðardóttur ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur undir liðnum Störf þingsins, en látum það vera. Metnaðurinn er góður.

Hún lauk máli sínu á því að segja að þetta ætti allt að liggja fyrir án þess að við þyrftum að gera nokkuð. Af því tilefni vil ég segja að umhverfisvernd snýst um það sem við gerum sjálf, bæði sem einstaklingar og sem samfélag. Það er kannski kjarni málsins. En ég tek að mörgu leyti undir það sem hv. þingmaður segir, hér þarf að bretta upp ermar. Það hefur kannski farið fram hjá hv. þingmanni að síðustu níu mánuði alla vega hefur stærstur hluti þingstarfanna farið í mál alls óskyld umhverfismálunum. Það hefur haft áhrif víða í stjórnkerfinu. En ég get glatt hv. þingmann með því að frumvarp um breytingar á skipulagslögum, sem er risavaxinn lagabálkur, er á leiðinni inn í þingið og það stóra mál er Framsóknarflokknum vel kunnugt um. Það er verið að vinna að endurskoðun náttúruverndarlaga. Eins og þingmaðurinn sagði er náttúruverndaráætlun nýsamþykkt. Frumvarp um rammaáætlun er líka á leiðinni inn í þingið og vonandi tekst okkur að stíga það heillaskref hér í vor og í sumar að afgreiða það mál í samkomulagi á hinu háa Alþingi. Loftslagsstefna ríkisstjórnarinnar liggur fyrir. Við erum í samningaviðræðum við Evrópusambandið um útfærslu hennar og um að nýta það svigrúm sem náin samvinna við Evrópusambandið, m.a. í gegnum viðskiptakerfið, færir okkur.

Hvað varðar vistvæna innkaupastefnu mun ég af þessu tilefni taka það upp í umhverfisnefnd að kanna hvernig framkvæmdarvaldið leiðir hana fram. Að síðustu er verið að innleiða Árósasáttmálann í íslenska löggjöf og það tekst vonandi síðar á þessu ári.