138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

vopnaleit á Keflavíkurflugvelli.

221. mál
[14:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og líka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir athugasemd hans. Það var einmitt þetta sem ég hjó eftir í svörum ráðherra, að hann talaði um embættismenn, lögreglumenn, tollverði og aðra sem væru með vopn og væru undanþegnir samkvæmt lögum. Ég gat ekki skilið betur. Síðan var talað um þjóðhöfðingja annarra landa og embættismenn sem tilgreindir væru frá viðkomandi þjóðum og rökin fyrir því. Hins vegar var mjög einkennilegt að heyra að þetta væri viðtekin vinnuregla varðandi þjóðhöfðingja Íslands og forsætisráðherra og maka þeirra. Það væri áhugavert að fá að vita hvort viðkomandi væru líka t.d. undanþegnir því að tollverðir leituðu hjá þeim af því það væri líka viðtekin vinnuregla. Ég tek undir það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði, ég get ekki séð að sérstök virðing sé fólgin í því að fólk undirgangist ekki sömu reglur, lög og fyrirskipanir og Íslendingar almennt þurfa að undirgangast. Ef menn vilja að svo sé er eðlilegt að lagagrunnur sé fyrir þeim undanþágum og Alþingi sé sammála um að gera það.

Ég ítreka líka að það væri áhugavert að fá fram hjá ráðherranum hvort hann viti nákvæmlega hver hugsunin er á bak við þessa plastpoka.