138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

sekt vegna óskoðaðra bifreiða.

[10:59]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Fyrir tæpu ári byrjaði dómsmálaráðuneytið að innheimta vanefnd gjöld vegna skoðunar á bifreiðum, þ.e. bifreiðum sem ekki höfðu komið skoðunar á réttum tíma. Sýslumannsembættið í Bolungarvík sinnir þessu hlutverki. Síðan í júní á síðasta ári er búið að innheimta af venjulegum Íslendingum, fjölskyldum á Íslandi, 300 millj. kr. Þetta er gríðarlega há upphæð og það virðast vera ýmsir misbrestir í framkvæmd þessa máls.

Það er að sjálfsögðu send út tilkynning þegar menn eiga að koma með bifreið til skoðunar en þetta er nýtt í kerfinu og menn hafa ekki lært á það. Það er svo auðsýnt að menn hafa ekki lært á þetta kerfi. Þess vegna þarf að vanda það sérstaklega og ekki síst við þær aðstæður sem nú eru þar sem fjárhagur margra landsmanna er bágborinn. Það þarf að leiða menn í gegnum þetta af meiri vinsemd en gert er, til að mynda með viðvörunum einhvern tíma áður en kemur að skuldaskellingunni. Að taka 300 millj. kr. úr vösum landsmanna undirstrikar fyrst og fremst að eitthvað í kerfinu öskrar á skatt frá fólkinu í landinu án þess að það sé farið eðlilega að vinnubrögðum í þeim efnum.

Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort ekki sé ástæða til að hæstv. ráðherra bregðist við og gæti þess að mikið sé lagt upp úr því að láta fólk vita og því sé fylgt eftir þannig að fólk einfaldlega læri á þetta nýja kerfi sem var (Forseti hringir.) úr gildi árum saman.