138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni Rúv.

[11:26]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að taka þetta mál upp hér og ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur verið í gangi. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað. Ég vil sérstaklega koma inn á þessar svæðistengdu stöðvar, það er mjög mikilvægt að þær haldi áfram, að skerpt sé á þjónustusamningnum og hann endurskoðaður.

Af því að töluvert hefur verið talað um að alþingismenn allir sem einn eigi að beita sér fyrir þessu, var það skilningur minn í fjárlaganefnd og eins í menntamálanefnd þegar þetta mál var til umræðu, ég held að ég sé ekkert að alhæfa, það voru allir sammála um, alveg óháð því í hvaða flokki menn eru, að niðurskurðinn innan þessarar stofnunar mætti ekki framkvæma með þeim hætti að fyrst yrði ráðist í svæðisstöðvarnar þar sem verið er að ná fram hagræðingu upp á 30 milljónir. Þetta er engin upphæð en þetta skiptir gríðarlega miklu máli, ekki eingöngu fyrir landsbyggðina heldur fyrir landið allt.

Ég skora á menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að þjónustusamningurinn verði endurskoðaður. Eins skora ég á útvarpsstjóra og útvarpsráð að taka þessar breytingar til baka og gera það sem fjárlaganefnd hvatti þá til að gera, þ.e. að endurskoða niðurskurðinn með það að markmiði að ekki sé ráðist á svæðisbundu stöðvarnar eins og útvarpsstjóri og fleiri hafa talað um. Ég vil ítreka þetta og hvet til þess að þeir skili hér inn nýjum tillögum sem miða að því að þetta sé ekki gert með þeim hætti.