138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. allshn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er stolt af mörgu sem þessi ríkisstjórn hefur gert. Það er líka hárrétt hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að Samfylkingin var í ríkisstjórn síðustu 18 mánuðina fyrir hrun efnahagslífsins, það er hárrétt hjá honum. Hins vegar var þetta efnahagslíf kerfi sem hafði verið byggt upp á 18 árum, þar kom Samfylkingin ekki að.

Ég get alveg fallist á það að þessa síðustu 18 mánuði hefðu menn mátt gæta meiri varúðar, ég ætla ekkert að flýja það. Hv. þingmaður spurði einnig hvort mér þætti það réttlátt að afskrifuð væru hundruð milljóna af ákveðnum einstaklingum. Ég segi: Nei, mér þykir það ekki réttlátt. Hv. þingmaður spurði mig hvort ég teldi að nóg hefði verið gert fyrir heimilin í landinu. Ég svara því bara eins og það blasir við mér núna, að svo virðist sem þau úrræði — mér finnst það nú svo leiðinlegt orð, ég ætla að nota það samt af því ég man ekki annað í bili — hafi ekki skilað þeim árangri sem ég hefði óskað. Það er því ekkert launungarmál að ég legg áherslu á að við reynum að gera enn betur í þeim efnum.