138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

stjórnarskipunarlög.

18. mál
[17:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnskipulag okkar byggir á þrískiptingu valdsins: löggjafarvaldi, dómsvaldi og framkvæmdarvaldi. Það þurfti mann á hjóli og Mannréttindadómstólinn í Strassborg til að koma hér á skilum á milli dómsvalds og framkvæmdarvalds. Enn skortir á skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Ein birtingarmynd þess er að æðstu menn framkvæmdarvaldsins, ráðherrar, starfa einnig sem þingmenn, hafa atkvæðisrétt í þinginu og er skipað til sætis í þingsal eins og yfirdómurum í dómsal.

Verkefni Alþingis er að setja almennar leikreglur en verkefni framkvæmdarvaldsins er að framkvæma vilja þess og taka sértækar ákvarðanir. Það á ekki að gera þær kröfur til nokkurrar manneskju að hún geti skilið svo á milli hlutverka sinna að hún setji almennar reglur eftir hádegi sem hún á starfa eftir fyrir hádegi.

Hér á landi ríkir þingræði. Þingræði þýðir að ráðherrar sitja í skjóli þingsins, þ.e. á ábyrgð þess. En hér á landi ríkir einnig ráðherraræði. Það kristallast á ýmsan hátt, m.a. í því að jafnvel þingmenn sjálfir tala um óbreytta þingmenn. Hvað þýðir það yfirleitt að vera óbreyttur þingmaður? Í mínum huga er ekkert til sem heitir óbreyttur þingmaður, öll höfum við í þingsalnum jöfn atkvæði. Kannski er það að vera óbreyttur þingmaður að hafa ekki bílstjóra, ég veit það ekki.

Væntanlega kemur þetta heiti til af því að nánast öll mál sem flutt eru í þinginu eru stjórnarfrumvörp, frumvörp sem samin eru í Stjórnarráðinu fyrir tilstilli ráðherra og send inn í þingflokka stjórnarflokkanna þar sem þau eru blessuð og þeim síðan fleytt í gegnum þingið. Það sem meira er, það þykir eðlilegt að svokölluð þingmannafrumvörp, þ.e. frumvörp sem ekki eru samin í Stjórnarráðinu, mæti afgangi á dagskrá og dagi upp í nefndum. Stundum dettur mér í hug hvort sú staðreynd að þessi frumvörp eru yfir höfuð tekin á dagskrá sé einungis hugsuð til þess að óbreyttir, eins og þeir kalla sig, fái við og við að láta ljós sitt skína.

Þessi vinnubrögð hafa leitt til þess að Alþingi hefur orðið eins konar afgreiðslustofnun ríkisstjórna og af þeim sökum hefur Alþingi sett niður, ekki einungis í augum þjóðarinnar heldur í raun jafnvel svo í augum þingmanna sjálfra að þeir kalla sig óbreytta.

Mig langar til að taka dæmi af vinnu við gerð fjárlaga. Ráðherraræðið er þar allsráðandi. Snemma árs er fjárlagarammi næsta árs ákveðinn. Þinginu kemur það ekkert við, ríkisstjórnin ákveður hann. Síðan skipar ríkisstjórnin, eða það skilst mér að hafi a.m.k. verið vinnuvenja hingað til, fjóra úr sínum hópi til að ákveða skiptinguna innan rammans. Þinginu, þ.e. óbreyttum þingmönnum, kemur það heldur ekkert við. Þingið fær síðan afhent fjárlagafrumvarp með hundruðum fjárlagaliða sem ógerningur er fyrir þá að botna nokkuð í. Ríkisstjórnin er búin að ákveða allar stóru línurnar og óbreyttir geta þjarkað um smáaura. Ef þeir ætla að hafa skoðun á öðru er þeim bent á að ríkisstjórnin hafi komið sér saman um eitthvað annað. Þannig á þetta ekki að vera, virðulegi forseti, þingið á að ákveða stóru línurnar og ríkisstjórnin á að þjarka um smáaurana.

Kannski þykir einhverjum skrýtið að þingmaður sem styður ríkisstjórnina flytji þennan boðskap. En það dugir ekki að hafa bara skoðun á því hvernig hlutirnir eiga að vera þegar fólk er í stjórnarandstöðu. Við verðum að gagnrýna það sem okkur þykir gagnrýnisvert við stjórnarhætti, hvort heldur við styðjum ríkisstjórn til sérstakra verkefna hverju sinni eða erum í stjórnarandstöðu. Við verðum að reyna að breyta því sem viljum breyta þótt á brattann sé að sækja.

Til að skilja á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds á fólk ekki að gegna þingmennsku og ráðherraembætti á sama tíma. Eðli máls samkvæmt munu ráðherrar taka þátt í umræðum á þingi og svara þingmönnum um þau málefni sem þeir bera ábyrgð á en þeir eiga ekki að hafa atkvæðisrétt á þingi og ekki að taka þátt í störfum þingflokka.

Með þessu móti mætti a.m.k. draga úr því ráðherraræði sem ríkt hefur hér á landi og með tímanum vonandi afnema það með öllu. Auðvitað þýðir þetta ekki að stjórnarfrumvörp heyri sögunni til og enn mun vera eðlilegt að þingmenn styðji frumvörp sem lögð eru fram af ráðherrum sem sitja í skjóli þeirra, en vinnubrögðin verða önnur vonandi og til heilla fyrir þjóðina.

Hv. þingmaður, 1. flutningsmaður þessa frumvarps, Siv Friðleifsdóttir, nefndi að Samfylkingin hefur ályktað um þetta árin 2003 og 2005, ég vil bæta við að árið 2009 ályktaði Samfylkingin sérstaklega um að sett yrði á fót stjórnlagaþing sem m.a. tæki afstöðu til eftirtalinna atriða, með leyfi forseta:

„Að valdmörk löggjafarvalds og framkvæmdarvalds verði skýrar afmörkuð. Leiðir til aðskilnaðar valdþáttanna, til dæmis með því að ráðherrar sitji ekki á þingi og að nefndir Alþingis verði styrktar og efldar.“

Fyrsti flutningsmaður talaði einnig um að í greinargerðinni er nokkuð vikið að fjölda ráðherra og hún sagði sem sína skoðun að hún teldi það kannski ekki forgangsatriði að fækka þingmönnum þó að ráðherrar gegndu ekki lengur þingmennsku. Ég tel þetta út af fyrir sig ekki endilega þurfa að vera hluta af sama málinu en ég vil hins vegar, fyrst að þessa var getið hér og talað um það í greinargerðinni, koma á framfæri þeirri skoðun minni að fækka beri þingmönnum. Ég var einu sinni á því að þeir ættu að vera 41 eða 49, síðan fékk ég bandamann í því að þeir yrðu 50 og það er sú tala sem ég ætla að halda mig við. Ég tel mjög æskilegt að alþingismenn verði 50.

Þetta frumvarp er um breytingu á stjórnarskrá. Það felur náttúrlega í sér að það getur ekki tekið gildi strax vegna þess að tvö þing þurfa að samþykkja breytingar á stjórnarskrá. Engu að síður, ef þessi breyting á að vera skylda, ef ráðherrar eiga ekki að geta gegnt þingmennsku, hlýtur að verða að binda það í stjórnarskrá, annars er ákveðinn réttur tekinn af þingmönnum. Það er líka hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, það er varla hægt að ætlast til þess, eins og lögin eru í dag, að þingmaður sem verður ráðherra segi af sér vegna þess að ef eitthvað kemur upp á á kjörtímabilinu kemst hann eða hún ekki aftur inn í þingið. Ég held að óeðlilegt sé að gera kröfu um svona væntingar til fólks.

Ég held að það komi fyrst og fremst fram í lögunum um þingfararkaup að þingmaður sem er kosinn á Alþingi getur ekki farið af þingi án þess að segja af sér. Það er spurning hvort breyta mætti þeim lögum til að gera mönnum kleift að segja af sér meðan þeir eru ráðherrar. Þá yrði það náttúrlega ekki skylda en það yrði valkvætt fyrir þá sem taka að sér þessi embætti. Ég skýri frá þessu hérna vegna þess að ég hyggst fara fram á það í allsherjarnefnd að þetta mál verði athugað út frá þessu sjónarhorni af því að ég tel að það yrði okkur öllum til góðs að breyting af þessu tagi gæti tekið gildi fyrr en síðar.