138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

stjórnarskipunarlög.

18. mál
[17:47]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér ræðum við miklar lýðræðisumbætur og það er eðlilegt að hv. 1. flutningsmanni, Siv Friðleifsdóttur, vökni um augu við að ræða þetta mál. Mig langar að þakka henni sérstaklega fyrir flutninginn og að vekja máls á þessu. Ég tel afar brýnt að málið nái fram að ganga til að rjúfa tengslin á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Mér finnst afar slæmt að ráðherrar skuli ekki geta eða þeim sé í raun og veru ekki fært að segja af sér þingmennsku á meðan þeir gegna ráðherradómi nema að hætta á það að eiga ekki afturkvæmt í þingsal fyrr en síðar. Ég hef tekið eftir því að það er meira en fullt starf að vera þingmaður og það er örugglega enn meiri vinna að vera ráðherra. Það hlýtur að vera algjör ógerningur að vinna þessi tvö störf á sama tíma, enda er það svo að ráðherrar taka almennt ekki mikinn þátt í þingstörfunum og sitja t.d. sjaldnast í nefndum þingsins.

Eins vil ég benda á að sitji lítill flokkur í ríkisstjórn og hafi jafnmarga ráðherra og samstarfsflokkurinn, en það hefur oft gerst, eru fáir eftir í þingflokknum til að vinna hin eiginlegu þingstörf. Ég tel að þetta frumvarp styrki sjálfstæði þingsins og auki lýðræðið. Ég vona svo sannarlega að það nái fram að ganga í þetta skipti. Reyndar tel ég að frekari lýðræðisumbóta sé þörf og auglýsi hér með eftir stjórnlagaþingi og persónukjöri.