138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir þessa spurningu, þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram næstkomandi laugardag og ríkisstjórnin hefur engin áform um annað. Hitt er annað mál að þegar fyrir liggur tilboð frá Bretum og Hollendingum um samning sem er með 70 milljarða lægri greiðslubyrði en sá samningur sem greiða á atkvæði um, veltir maður auðvitað fyrir sér um hvað á að greiða atkvæði ef þetta er raunverulega þjóðaratkvæðagreiðsla um samning sem enginn berst fyrir lengur. Maður veltir fyrir sér: Er þetta ekki hálfgerður hráskinnaleikur? Er þessi þjóðaratkvæðagreiðsla ekki marklaus þegar fyrir liggur annað tilboð á borðinu sem við gætum fengið? Maður veltir líka fyrir sér að ef svo færi að samningar tækjust í þessari viku, og eru bæði stjórn og stjórnarandstaða að vinna í því, er þá ástæða til að halda þessari þjóðaratkvæðagreiðslu til streitu ef það liggur allt annar og betri samningur á borðinu? Það er auðvitað margt sem kemur upp í hugann þegar maður veltir fyrir sér þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Er í raun og veru verið að kjósa um samning eða lög sem ekki eru lengur „aktúel“ og um samning sem ekki er lengur á borðinu vegna þess að annar og nýr samningur stendur í boði og hugsanlega gæti verið eitthvað meira í boði þegar líður á vikuna? En við skulum sjá hvað setur. Það eru engin áform um annað hjá ríkisstjórninni en að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Sá bæklingur sem hv. þingmaður talaði um fer væntanlega í dreifingu á morgun.