138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Meðflytjendur eru Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Eygló Harðardóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Höskuldur Þórhallsson.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að láta vinna efnahagsáætlun sem tryggir velferð og félagslegan stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Skilgreindar verði nauðsynlegar aðgerðir til að gera íslenskt hagkerfi óháð aðstoð sjóðsins og forðast frekari skuldsetningu ríkissjóðs, aðgerðaáætlun útbúin og henni fylgt eftir. Leitað verði liðsinnis færustu erlendra sérfræðinga á sviði hagvísinda við mótun og framkvæmd áætlunarinnar til að tryggja þann trúverðugleika efnahagsstjórnar landsins sem er nauðsynlegur.

Efnahagsáætlunin liggi fyrir 1. október 2010 og komi til framkvæmda fyrir 2011.

Ráðherra kynni Alþingi efnahagsáætlunina við fyrsta tækifæri eftir að þing hefur verið sett í október 2010.

Greinargerð er svohljóðandi:

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ákveðið var að fara í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Forsendur hafa gjörbreyst og ljóst að ekki er hægt að treysta á hlutleysi sjóðsins eða að hann framfylgi yfirlýstum markmiðum sínum um að aðstoða þjóðir í fjármála- og gjaldeyriskreppu. Flutningsmenn telja að það hafi sýnt sig að Bretar og Hollendingar hafa misbeitt sjóðnum til að reyna að knýja fram þá niðurstöðu sem þeim hugnast varðandi svokallaðar Icesave-skuldbindingar. Slík vinnubrögð eru algerlega ólíðandi og ættu að vera næg ástæða til að afþakka frekari aðstoð. Þrátt fyrir mikla seinkun á endurskoðun sjóðsins hefur tekist að halda efnahag landsins á floti. Þá telja flutningsmenn það ekki að sjá að endurskoðun sjóðsins hafi haft teljandi áhrif á efnahagslífið.

Ísland, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og umheimurinn. Eftir hrun bankakerfisins síðasta haust kom fátt annað til greina en að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð þar sem stjórnvöld komu alls staðar að lokuðum dyrum.

Ísland er eitt af stofnríkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en hann var stofnaður árið 1945. Um 185 lönd eru nú aðilar að sjóðnum. Ísland var skuldlaust við sjóðinn fyrir hrun en hafði þó fengið lán frá honum í fjórgang, fyrst árið 1960 á árum Viðreisnarstjórnarinnar, þá 1967– 1968 þegar síldin hvarf, 1974–1976 þegar verð á olíu hækkaði og loks árið 1982 vegna útflutningsbrests.

Yfirlýst hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að auka samvinnu milli þjóða og tryggja stöðugleika í fjármálakerfum heimsins. Honum ber að aðstoða þjóðir í fjármála- og gjaldeyriskreppu og lána ríkisstjórnum fé til að koma eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum í gang.

Skiptar skoðanir eru um það hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur tekist að rækja þetta hlutverk sitt. Hann hefur löngum þótt strangur húsbóndi sem ekki hefur tekið nægilegt tillit til sérstakra og staðbundinna aðstæðna. Sjóðurinn hefur þótt einsýnn í málefnum þróunar- og nýmarkaðslanda þar sem hann hefur lagt höfuðáherslu á gildi nýfrjálshyggjunnar frekar en að laga aðstoð sjóðsins að aðstæðum á hverjum stað.

Hagstjórnartæki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þrátt fyrir að nú sé meira en áratugur síðan efnahagskreppan í Asíu beindi athyglinni að meiri háttar mistökum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er sjóðurinn enn að gera svipuð mistök í mörgum löndum, sérstaklega í þróunarlöndunum. Á sama tíma og sjóðurinn styður fjárhagslega örvandi aðgerðir í ríkum löndum þvingar hann þróunarlöndin til þess að innleiða kreppudýpkandi hagstjórnaraðgerðir. Sú aðferðafræði hefur verið gagnrýnd á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem settu á fót sérfræðinganefnd undir forustu Joseph Stiglitz til að grafast fyrir um orsakir kreppunnar og áhrif hennar um heim allan. Nefndinni var einnig ætlað að koma með tillögur að aðgerðum til að koma í veg fyrir að álíka atburðir endurtaki sig og vísa á leiðir sem væru líklegri til að koma á efnahagslegum stöðugleika. Um þetta má lesa í skýrslu nefndarinnar „Report of the Commission of Experts of the President of the United Nations General Assembly on Reforms of the International Monetary and Financial System“, sem má nálgast á vef Sameinuðu þjóðanna.

Víða þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið að málum hafa stjórnvöld, sem fyrr segir, verið neydd til að beita kreppudýpkandi aðgerðum og ljóst er að hið sama gildir um Ísland, þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna um að Ísland fái sérmeðferð. Hagstjórnartækin sem íslensk stjórnvöld eru þvinguð af sjóðnum til að nota eru hátt vaxtastig, mikil skuldsetning vegna gjaldeyrisvarasjóðsins og of hraður niðurskurður. Nýleg könnun sem gerð var af miðstöð fyrir rannsóknir á efnahags- og stjórnmálum í Washington leiddi í ljós að af 41 landi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur haft afskipti af undanfarin ár hafa 31 þeirra verið þvingað til að beita kreppudýpkandi hagstjórnaraðgerðum: háu vaxtastigi, niðurskurði velferðarkerfisins og aðhaldssemi er varðar aukið peningamagn. Sjóðurinn er þekktur fyrir að leggja of mikla áherslu á að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, sem m.a. hefur leitt til mun dýpri kreppu en annars hefði orðið. Dýpt kreppunnar skiptir miklu máli þar sem bæði fyrirtæki og einstaklingar verða fyrir miklum skaða vegna niðurskurðar og stöðnunar í efnahagslífi þjóðarinnar. Í raun er verið að eyðileggja auð þjóðarinnar þar sem ekki er hægt að endurreisa fyrirtæki né heimili sem verða gjaldþrota. Hægari niðurskurður mundi þýða minni samdrátt en á móti mun hann draga úr hagvexti þegar hagkerfið er farið að ná sér á nýjan leik.

Rannsóknir sýna að fjármálakreppa einkennist af mikilli eignatilfærslu frá þeim fátæku til þeirra ríku. Annað sem einkennir fjármálakreppu er aukinn ójöfnuður sem stafar m.a. af auknu atvinnuleysi og niðurskurði velferðarkerfisins. Markmið hagstjórnar á krepputímum á að vera að auka efnahagslega velferð og leiðirnar að því markmiði eru aðgerðir sem tryggja fulla atvinnu, hagvöxt og stöðugleika til lengri tíma. Efnahagsstefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda mun ekki ná fram þessum markmiðum. Markmið hennar er aðeins að tryggja að fjármagnseigendur fái sæmilega ávöxtun á fé sitt á meðan það er lokað inni í hagkerfinu og að Seðlabankinn hafi bolmagn til að kaupa krónurnar af þessum fjármagnseigendum þegar hægt verður að afnema gjaldeyrishöftin án þess að krónan fari í frjálst fall.

Flutningsmenn telja einsýnt að með því að leggja á þjóðarbúið sívaxandi erlendar skuldir verður kreppan lengd um ófyrirsjáanlegan tíma og mikil hætta á að það velferðarkerfi sem við njótum í dag muni líða undir lok ef fer sem horfir.

Erlendar skuldir landsins eru nú þegar orðnar háskalega miklar og því hætta á að þjóðin þurfi að búa við þann hörmulega veruleika að stór hluti þjóðarframleiðslu muni aðeins renna til þess vonlausa verkefnis að greiða vexti af erlendum skuldum.

Flutningsmenn telja mikilvægt að ríkisstjórnin leiti allra leiða til að endurreisa efnahagslíf landsins án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og er þingsályktunartillaga þessi því lögð fram. Nú þegar hafa fjölmargir heimsþekktir og sérfróðir menn lagt fram tillögur og hugmyndir um hvernig má losa þjóðina úr fjötrum sjóðsins. Lagðar hafa verið fram tillögur um lánalínur í stað beinna lána og þá hafa sérfræðingar sem unnið hafa fyrir sjóðinn boðist til að vinna með ríkisstjórninni að áætlun um endurreisn Íslands og aðhald í fjármálum sem þætti jafntraust eða traustara meðal lánardrottna okkar en áætlun frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Flutningsmenn leggja því til að fjármálaráðherra verði falið að láta vinna efnahagsáætlun sem tryggi velferð og félagslegan stöðugleika án aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mikilvægt er að efnahagsáætlunin liggi fyrir sem fyrst eða fyrir 1. október 2010 svo að unnt sé að hefja vinnu sem allra fyrst við að koma henni til framkvæmda fyrir árið 2011.

Fjármálaráðherra skal kynna Alþingi efnahagsáætlunina við fyrsta tækifæri eftir að þing kemur saman í október 2010 og helst eigi síðar en 5. október 2010.

Frú forseti. Þrátt fyrir blóðugan niðurskurð og aukna skattbyrði sem endurspeglast í nýsamþykktum fjárlögum er ljóst að það dugar ekki til að þóknast lénsherrum landsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er enn notaður sem handrukkari fyrir nýlenduherrana í Bretlandi og Hollandi. Tafir eru enn og aftur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi uppfyllt öll skilyrði sjóðsins um aðhald. Það stingur mig, frú forseti, að margir þingmenn stjórnarliða og jafnvel hæstv. fjármálaráðherra hafnar því að við séum í sérstöku prógrammi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að sjóðurinn leggi ekki línurnar um hvernig tekjum ríkissjóðs er varið. Við hljótum væntanlega að vera eina landið í heiminum sem ekki fylgir prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem prógrammi.

Samkvæmt því sem ég hef komist að innan þings var sá harkalegi niðurskurður sem átti sér stað með aukafjárlögum til að stemma stigu við þeim mikla halla sem var á ríkissjóði, sá harkalegi niðurskurður var til að sýna þeim að okkur væri full alvara að fylgja efnahagsáætlun þeirra. Þá var skorið niður til öryrkja og ellilífeyrisþega til að sýna lénsherrunum að ekkert væri okkur heilagt til að fá náðarsamlegast aðstoð þeirra. Það getur verið að hæstv. fjármálaráðherra hafi spyrnt hressilega við fótum varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þegar hann var í stjórnarandstöðu en sú viðspyrna er með öllu horfin og vegna þess þrýstings sem við höfum verið beitt vegna Icesave af hendi sjóðsins hefur allri efnahagsáætlun sjóðsins verið seinkað og einsýnt að það muni taka okkur miklu lengri tíma að losna undan fjötrum hans. Þá er jafnframt einsýnt að við höfum lítið sem ekkert gert til að treysta sambönd og viðskiptamöguleika við aðrar þjóðir en þær sem hafa hvað mest tekið þátt í aðförinni að íslensku þjóðinni.

Í skýrslu sem lekið var frá hernaðarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í fyrra þar sem fjallað er um óhefðbundinn hernað kemur fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er flokkaður sem hergagn í efnahagshernaði ásamt The World Bank og fleiri áþekkum stofnunum. Ég er ekki með þessu að segja að verið sé að nota sjóðinn í slíkum tilgangi hér en að sjálfsögðu er ekki þægileg tilhugsun að vera með eitthvað sem skilgreint er sem efnahagsvopn inni á gafli hjá sér í ljósi þess hvernig sjóðnum hefur verið beitt gegn okkur varðandi Icesave. Það ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart að sjóðnum sé beitt á þann ógeðfellda hátt sem honum hefur verið beitt gegn okkur en er einhver trygging fyrir því að honum verði ekki aftur beitt á svipaðan hátt? Icesave verður án efa ekki eina erfiða málið sem við þurfum að glíma við á alþjóðavettvangi og margir óvissuþættir í náinni framtíð.

Ég hvet þingmenn sem og þjóðina að kynna sér sögu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en það er hægt að finna gagnlegar upplýsingar um sjóðinn á internetinu sem og hjá alþjóðafélagi sem kallað er „Attac“. Nýverið var stofnuð Íslandsdeild Attac og er hægt að finna fróðlegar greinar á vef samtakanna attac.is.

Gunnar Skúlason skrifar á vef Attac, attac.is, með leyfi forseta:

„Skuldir Íslands í dag eru um 320% af vergri landsframleiðslu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði fyrir ári, þegar skuldirnar voru 240%, að það væri hámarkið. Núna höfum við farið langt umfram það í skuldum en samt heldur AGS því fram að við getum staðið í skilum. Reyndar bendir AGS á tvennt. Í fyrsta lagi verði Ísland að fylgja áætlun AGS fyrir Ísland mjög nákvæmlega. Hitt sem AGS tekur fram er að ef fleiri skuldir finnast eða gamlar skuldir aukast þá verði Ísland sennilega að selja einhverjar auðlindir sínar upp í skuldir.“

Frú forseti. Það er enginn skaði skeður að leita annarra leiða en þeirrar að vera í prógrammi sem étur að innan grunnstoðir samfélags okkar. Það vita allir sem hafa kynnt sér verklag Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að það er ekki hægt að reka norrænt velferðarkerfi undir handleiðslu sjóðsins. Prógramm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gengur fyrst og fremst út á hagnað, einkavæðingu, og hann hefur aldrei verið þekktur fyrir að huga að viðkvæmum samfélagsþáttum, velferðarkerfið er ekki hluti af áætlun sjóðsins.

Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að finna aftur innra með sér þann eldmóð sem knúði hann áfram í baráttu sinni gegn sjóðnum áður en hann tók við ráðherrastól. Ef vilji er fyrir hendi getum við fundið aðrar leiðir fyrir land og þjóð sem yrðu okkur farsælli en að hafa efnahagsvopn hangandi yfir okkur. Gleymum ekki hvernig Bretar beittu hryðjuverkalögunum á okkur, það mundi teljast efnahagsvopn. Gleymum ekki hvernig sjóðnum hefur verið beitt gegn okkur, gleymum ekki að það er aldrei bara ein leið fær.

Ef við höldum áfram að láta teyma okkur út í enn frekari skuldafen er hætt við að ekkert megi út af bregða til að það verði hreinlega ekki úr því feni komist. Því kalla ég eftir áræði og hugrekki meðal þeirra sem halda hér um stjórnartauma til að finna aðrar leiðir út úr þessu prógrammi. Norðurlandaþjóðirnar eru hægt og bítandi að gera sér grein fyrir því að þær kröfur sem á okkur hafa verið lagðar eru þess eðlis að við munum aldrei rísa undir þeim. Nú ríður á samstöðu meðal Norðurlanda en jafnframt ættum við kanna hvort við getum ekki farið í samstarf við þjóðir sem hafa farið illa út úr veru sjóðsins á sínum heimaslóðum. Það er styrkur í samstöðu og alþjóðasamfélagið er miklu stærra en það sem næst okkur liggur.