138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála mörgu af því sem Samtök atvinnulífsins leggja til hvað varðar atvinnuuppbyggingu í landinu en alls ekki öllu, ekki því að hraða beri virkjana- og stóriðjuframkvæmdum. Eftir fall bankanna hafa orkufyrirtækin, ríkissjóður og fyrirtæki í landinu ekki aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum. Brýnar, atvinnuskapandi aðgerðir eru því við þessar aðstæður að setja skuldsett fyrirtæki fjárglæframanna í þrot, hraða fjárhagslegri endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja til að þau geti fjárfest og ráðið nýtt fólk, bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja með lækkun vaxta í 5%, afskrifa tapaðar kröfur og færa niður höfuðstól lána heimilanna til að örva eftirspurn í hagkerfinu.

Frú forseti. Hér á landi hafa fjárfestar fyrst og fremst áhuga á því að kaupa stórfyrirtæki og virðast hafa til þess nægilegt fjármagn. Velta má fyrir sér hvers vegna ákveðnir fjárfestar hafa svona mikið fjármagn á milli handanna. Líklegt er að þetta fé sé til komið í gegnum skuldsettar yfirtökur fjárfestingarfélaga á rekstrarfélögum sem nú eru tæmd að öllum eignum. Nauðsynlegt er að setja slík félög sem fyrst í þrot, þ.e. fjárfestingarfélögin og eignarhaldsfélögin, til að hægt verði að þjóðnýta illa fengið fé og til að tryggja að þeir sem best eru til fyrirtækjarekstrar fallnir eignist rekstrarfyrirtækin þegar þau fara í sölu.

Frú forseti. Við tryggjum ekki atvinnu og velferð í landinu nema við hættum að tipla á tánum í kringum kröfuhafa og útrásarvíkingana. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)