138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

reglugerð um gjafsókn.

380. mál
[15:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þegar verið var að ræða þessar breytingar og þessa reglugerð, þar sem verið var að takmarka tekjuviðmiðið, benti hv. þm. Atli Gíslason á að hann teldi að þarna væri hugsanlega verið að brjóta mannréttindi fólks, það væri verið að takmarka aðgengi að dómstólum. Ég tel að þetta sé mjög alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að ráðherrar í ríkisstjórn hafa ítrekað bent á að í þeim málum sem varða gengistryggð lán á fólk að fara með mál fyrir dómstóla. Miðað við þær upplýsingar sem ráðherra kom með í svari sínu virðist vera að töluvert sé sóst eftir gjafsókn. Við vitum að það eru mjög mörg mál sem eru í ferli í dómskerfinu, það er mikið að gera hjá dómstólum, en vegna þessa gæti hugsanlega verið að þarna sé fólk sem er ekki að leita réttar síns, fólk sem ætti rétt á því að fá gjafsókn og ætti rétt á því að fá niðurstöðu varðandi mál sem ég hef nefnt hérna.

Laufey Helga Guðmundsdóttir skrifaði áhugaverða grein sem heitir „Aðgengi að íslenska réttarkerfinu; Lok, lok og læs og allt í stáli, lokað fyrir Páli?“ Hún fer þar í gegnum það hverjir möguleikar fólks eru. Hún fer í gegnum það hversu hár lögmannskostnaðurinn getur verið. Hún talar um gjafsóknina og hversu mikið takmarkandi það er. Hún talar líka um önnur úrræði sem fólk getur sóst eftir og þetta er eitthvað sem ég tel mjög mikilvægt að koma betur á framfæri við fólk. Það er lögmannavakt Lögmannafélagsins, það er Orator, sem hefur verið að bjóða upp á fría lagaaðstoð og ýmsir fleiri en það þarf að koma þessum upplýsingum á framfæri.

Við vitum að staðan hjá ríkinu er ekki góð og voru lög nr. 70/2009 samþykkt þar sem verið er að tala um að ráðherra gæti takmarkað hámarkið á gjafsóknarfjárhæðinni enn meira. Þar væri enn frekar verið að ganga að réttindum fólks og mannréttindum sem ég mundi halda, í ljósi hins nýja titils hjá ráðherranum, að henni ætti að vera mjög umhugað um.