138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

288. mál
[15:33]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni þessa frumvarps, Eygló Harðardóttur, kærlega fyrir þetta framtak og það frumkvæði sem hún hefur sýnt með því að leggja frumvarpið fram og vekja athygli á að þótt hlutirnir hafi verið lengi á einn veg þurfi þeir ekkert endilega alltaf að vera þannig. Við lifum núna á ótrúlega merkilegum umbrotatímum og þótt okkur finnist hlutirnir ganga seint og breytingarnar verða allt of hægt hefur samt orðið framför og nú er einmitt tækifærið til að koma breytingum á víða.

Ég styð þetta heils hugar og hef svo sem ekki miklu við ágæta framsögu 1. flutningsmanns að bæta. En mig langar engu að síður aðeins að ræða eða leggja áherslu á að lífeyrissjóðirnir byggja á skyldutryggingum lífeyrisréttinda. Þetta eru peningarnir okkar, þetta eru peningar almennings, fólksins í landinu. Núna eru t.d. uppi hugmyndir um einkaframkvæmdir t.d. í vegagerð sem væru þá kostaðar með fé úr lífeyrissjóðunum, sem sagt af almenningi. Þetta er eiginlega klassískt AGS-dæmi, það kemur upp í löndum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið, að framkvæmdum er í auknum mæli beint í einkafarveg. Mér finnst mjög mikilvægt að fólk átti sig á þessu, almenningur í landinu sem á þetta fé í lífeyrissjóðunum og hafi eitthvað um það að segja hvort þetta verður raunin.

Að öðru leyti þakka ég kærlega fyrir þetta framtak og ítreka það að ég styð málið.