138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

staðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til þess að ræða stöðuna að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um viðaukann við Icesave-lögin frá fyrrahausti. Þjóðaratkvæðagreiðslan markaði tímamót að því leyti að hún ryður brautina fyrir beint lýðræði í landinu og það er mjög jákvætt. Við þurfum í þinginu að leggja allt kapp á að afgreiða það frumvarp sem ég hef lagt fram um stjórnlagaþing, það verði kvatt saman hið fyrsta til þess að bæta stjórnskipan landsins og festa þann möguleika í lögbókina að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur.

Ríkisstjórnin fylgdi í einu og öllu gildandi stjórnskipan við undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hún greiddi umsvifalaust fyrir því að málskot forseta til þjóðarinnar næði fram að ganga með samþykkt sérstakra laga um þjóðaratkvæðagreiðsluna og með hnökralausri framkvæmd hennar. Úrslitin á laugardaginn voru skýr um kosningaefnið sjálft en þau ljúka hvorki málinu né leysa vandann. Lögum nr. 1/2010 var hafnað með yfirgnæfandi meiri hluta eins og við mátti búast enda mælti enginn með öðru þar sem lögunum hafði í raun þegar verið ýtt til hliðar í nýrri samningalotu.

Þrátt fyrir skýr úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar er enn ósamið í Icesave-deilunni. Strax og forseti Íslands hafði nýtt sér málskotsrétt sinn í byrjun árs hafði ríkisstjórnin forgöngu um skipan nýrrar samninganefndar þar sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi áttu aðkomu. Í þeirri samninganefnd hefur verið góð samstaða og nýjar viðræður við bresk og hollensk stjórnvöld um lausn málsins hafa staðið um hríð.

Ríkisstjórnin hefur lagt höfuðáherslu á að sá þráður slitnaði ekki hvað sem þjóðaratkvæðagreiðslunni liði og samstaða héldist í íslensku samninganefndinni og samráðinu milli stjórnmálaflokka. Sú viðleitni hefur skilað þeim árangri að Bretar og Hollendingar hafa fallist á að halda viðræðunum áfram.

Á undanförnum vikum hefur umtalsvert þokast í samkomulagsátt og hafa Bretar og Hollendingar m.a. lagt fram tilboð sem felur í sér betri kjör en fyrri samningur. Í viðræðunum hefur íslenska samninganefndin einnig lagt fram tilboð sem felur í sér og ítrekar að Ísland muni greiða lágmarkstryggingar vegna Icesave-reikninganna upp á 20.887 evrur. Þetta hefur verið forsenda íslenskra stjórnvalda frá bankahruninu og þetta er forsenda íslensku samninganefndarinnar nú.

Íslensk stjórnvöld munu áfram vinna að farsælli lausn Icesave-málsins á þessum nýja grunni og með samninganefndinni sem hefur skilað góðu verki. Ég tel það ákaflega mikilvægt að í umræðum að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu hafi forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna lagt áherslu á að haldið verði áfram að vinna að lausn málsins á þessum sameiginlega grunni.

Þingleg eining virðist því ríkja um að halda samningaumleitunum áfram með það fyrir augum að knýja fram samninga sem endurspegla sanngjarna skiptingu þjóðanna þriggja á búsifjum vegna Icesave-glæfra Landsbankans. Þjóðirnar hafa sammælst um að halda viðræðum áfram. Ríkisstjórnin hefur þegar lagt drög að því að haldinn verði sem fyrst fundur formanna flokka og samninganefndar til að ræða næstu skref. Ég treysti því að áfram verði full samstaða og gott samráð milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að leiða málið til lykta.

Engum blöðum er um það að fletta að tafirnar á lausn Icesave-málsins kosta okkur milljarðatugi. Eðlileg og nauðsynleg fjármálaviðskipti milli Íslands og annarra landa hafa ekki komist á vegna Icesave-deilunnar. Horfurnar í efnahagsmálum hafa versnað og dráttur á efnahagsbata og hagvexti mun magna upp öll okkar vandamál í ríkisfjármálum og efnahagsmálum í stað þess að horfur voru á því að rofa tæki til síðar á árinu. Stórar fjárfestingar eru í hættu vegna tregðu alþjóðlegra lánastofnana til fjárútvegunar á arðbærum kjörum.

Alþýðusambandið telur að vegna tafanna verði landsframleiðsla 2,4% minni en ella og að atvinnulausum gæti fjölgað um 2.000–3.500 manns. Efnahagsleg endurreisn atvinnulífsins hefur þegar tafist um hálft ár. Komi til frekari lækkunar á lánshæfismati ríkisins gæti það enn aukið á erfiðleika vegna endurfjármögnunar á skuldum fyrirtækja á næstu missirum. Aldrei verður hægt að reikna þetta tap út nákvæmlega í krónum og aurum en enginn getur horft fram hjá því.

Við höfum lagt mikla áherslu á það hvarvetna í viðræðum við stjórnvöld annarra landa og erlenda fjölmiðla að ósanngjarnt sé að deilum okkar við Breta og Hollendinga sé blandað saman við önnur alþjóðleg samskipti Íslendinga, slík samblöndun geti einnig dregið úr getu Íslendinga til þess að standa við skuldbindingar og sé því í mótsögn við tilætlanir alþjóðsamfélagsins.

Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að Icesave-deilan sé einkamál Íslendinga, Breta og Hollendinga. Ég spyr: Er ekki löngu orðið tímabært að aðildarlönd AGS hætti að ræða einkamál á vettvangi sjóðsins? Ég vil taka það fram að ríkisstjórnin hyggst ótrauð halda áfram að fást við þau miklu vandamál sem henni var falið að glíma við. Mörg stór verkefni bíða þings og stjórnar sem snúast um heimilin, atvinnuna, bankana, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og svo mætti lengi telja.

Þrátt fyrir stór orð í garð ríkisstjórnarinnar hef ég hvorki heyrt frá stjórnarandstöðunni kröfu um að ríkisstjórnin fari frá tafarlaust né að ætlunin sé að bera fram vantraust á hana. Það verður ekki skýrt öðruvísi en að stjórnarandstaðan treysti sér ekki að svo komnu máli til þess að taka á sig ábyrgð af stjórn landsins. Mér hefur að undanförnu fundist bera talsvert á því að stjórnarandstaðan vilji stjórna með fyrirmælum úr aftursætinu án þess að axla ábyrgð.

Vitaskuld er út í hött að túlka niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar á þann hátt að hún feli sér sérstakt vantraust á ríkisstjórnina. (Gripið fram í: Nú?) Málið sem greitt var atkvæði um var komið til hliðar og í nýjan farveg. Þúsundir stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar sögðu nei í kosningunni við munaðarlausum lögum sem þorri manna var sammála um að ekki kæmu lengur til álita. Það er fráleitt að túlka afstöðu þessa fólks sem vantraust á ríkisstjórnina enda málið allt afmarkaður fortíðarvandi.

Við sem störfum í ríkisstjórn höfum fengið hvatningu til að styrkja og þétta raðir okkar. Icesave-deilan ein og sér á ekki að ráða örlögum ríkisstjórnarinnar, en henni er mikil nauðsyn á því að geta átt vísan traustan meiri hluta fyrir mörgum öðrum stórmálum sem stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir að við náum fram. Samkvæmt úrslitum síðustu kosninga hefur ríkisstjórnin þingstyrk til að koma málum fram og ekkert bendir til annars en að hún njóti hans.

Virðulegi forseti. Ég hlusta ætíð með athygli á það þegar hvatt er til samstöðu á þingi um helstu mál. Við munum að sjálfsögðu leita eftir henni. Það getur þó aldrei verið þannig að sá sem lengst vill ganga eða sá sem hægast vill fara ráði ferðinni. Vilji til samkomulags og málamiðlunar þarf að vera fyrir hendi, annað er sjónarspil.

Þeir tímar koma í lífi þjóðar og stjórnmálamanna að þurfa að hefja sig yfir dægurþras og flokkahagsmuni og ná samkomulagi um að bjarga þjóðinni, sem þeir eru fulltrúar fyrir, úr bráðum háska. Slíkir tímar eru nú á Íslandi. Við skulum minnast þess á næstu vikum og láta verkin tala.