138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

staðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:15]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni er ánægjuefni, þátttakan var góð og skilaboðin skýr. Þjóðin sagði nei við þeim samningum sem ríkisstjórnin barðist fyrir og kláraði hér undir lok síðasta árs. Þessi skýra niðurstaða er stór áfangi fyrir íslensku þjóðina í Icesave-deilunni. Hún styrkir málstað og samningsstöðu Íslands því að á laugardaginn var sýnd órofasamstaða um að standa gegn hvers konar pólitískum afarkostum og þvingunum. Ríkisstjórnin hafði ekki burði eða afl í sér til þess að standa gegn hótunum og ýmsum þvingunum sem við höfum orðið vitni að allt frá haustinu 2008. Því kom það á endanum í hlut íslensku þjóðarinnar að stíga fram og segja nei og það gerði hún hressilega á laugardaginn.

Forustumenn ríkisstjórnar Íslands hafa oft og ítrekað sagt úr þessum ræðustól að þeir vildu og ætluðu að bera ábyrgð á Icesave-lögunum, með leyfi forseta:

„Það er ég sem tek á mig ábyrgðina, pólitíska ábyrgð af því að hafa farið með þetta verk.“

Svona komst Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, að orði í ræðu um málið á síðasta ári. Þær ábyrgðaryfirlýsingar sem forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað gefið hljóta enn að vera í gildi og nú er spurningin þessi: Hvernig ætlar íslenska ríkisstjórnin að axla þá ábyrgð sem hún svo mjög óskaði eftir að fá að axla allt fram undir lok síðasta árs?

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur misst allt traust. Hún hefur brugðist fólkinu í landinu. Hún hefur brugðist gagnvart atvinnulífinu og hún hefur brugðist gagnvart heimilunum. Þróunin í endurnýjuðum viðræðum sýnir að hún brást einnig hrapallega í hagsmunagæslu í Icesave-málinu. Ríkisstjórnin stendur þess vegna á algjörum brauðfótum og ég öfunda ekki ríkisstjórn sem þarf að horfast í augu við þá falleinkunn sem 93% þjóðarinnar hafa gefið henni.

Það var hvorki ég né stjórnarandstaðan sem batt líf þessarar ríkisstjórnar við niðurstöðuna í atkvæðagreiðslunni, það voru stjórnarliðar sem gerðu það, það voru einstakir ráðherrar sem gerðu það. Jafnvel þótt ég hafi verið þeirrar skoðunar að líf ríkisstjórnarinnar væri ekki undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni heldur fyrst og fremst framtíðargildi þeirra laga sem þar var tekist á um hlýtur engu að síður framtíðarlíf ríkisstjórnarinnar að velta á því trausti sem íslenska þjóðin ber til hennar. Ríkisstjórn í þessari stöðu nýtur ekki trausts þjóðarinnar, hún hefur brugðist í hagsmunagæslunni og hlýtur að þurfa að hugsa sinn gang.

Hér velti forsætisráðherra upp þeirri spurningu hvort við í stjórnarandstöðu værum tilbúin til að axla okkar ábyrgð. Ég skal taka af allan vafa um það. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn í kosningar hvenær sem forsætisráðherra vill boða til þeirra. Strax eftir sveitarstjórnarkosningar skulum við fara í kosningar og raða upp spilunum á ný. Ekki skal standa á mér að ganga til kosninga þegar forsætisráðherra vill. Betur færi á því að það gerðist fyrr en síðar. Það er hins vegar ómaklegt þegar því er haldið fram að stjórnarandstaðan hafi brugðist í samstöðu um að leysa Icesave-málið. Við höfum staðið þétt að baki samninganefndinni en það skiptir máli hvar við erum stödd í viðræðunum. Hverjar eru kröfur viðmælenda okkar í Icesave-deilunni? Hér kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að það þyrfti að leiða málið til lykta þannig að sanngjörn skipting þjóðanna fengist. Þá skulum við hafa þetta í huga: Bretar vilja fá höfuðstólinn greiddan, Bretar vilja fá fjármagnskostnað sinn greiddan, Bretar ætla enga áhættu að taka af framtíðarvirði eigna Landsbankans, Bretar vilja ekki taka áhættu af gildi neyðarlaganna, Bretar hafa viljað semja sig frá Ragnars Halls-ákvæðinu. Þetta er staðan jafnvel þótt Bretar hafi nú fallist á að innheimta ekki vaxtahagnað af lánunum til Íslands.

Menn þurfa að athuga að nýtt tilboð Breta, sem svo er nefnt, felur fyrst og fremst í sér að þeir hafa fallið frá því að hafa hagnað af vaxtaálagi á lán til Íslendinga. Er það þetta sem hæstv. forsætisráðherra er að tala um þegar hún minnist á sanngjarna niðurstöðu í málinu? Ég er þeirrar skoðunar að umboð íslenskra stjórnvalda hafi verið þrengt eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Það er skylda okkar á þinginu að hlusta eftir þeim skilaboðum sem þjóðin er að senda okkur. Við hljótum að taka þau skilaboð mjög alvarlega. Við hljótum að standa saman og verja íslenska hagsmuni gegn yfirgangi erlendra þjóða.

Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra, það er kominn tími til þess (Forseti hringir.) að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hætti að taka innanríkismál á Íslandi upp á dagskrá og afgreiði lánsbeiðnina. Það eru engin rök, engin lög, ekkert réttlæti að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gangi ekki frá lánsbeiðninni og að Norðurlöndin standi ekki með okkur í málinu.