138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[16:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Okkur og stofnuninni væri nú meiri sómi að því að menn hefðu þessa umræðu um vinnubrögð sín á milli í nefndum þingsins. En fyrst hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins leyfir sér að vera með aðdróttanir um að ég komi hér upp með undirbúnar fyrirspurnir til ráðherra minna vil ég bara undirstrika að ég spurði þann ráðherra í ríkisstjórninni sem er fagráðherra efnislegrar spurningar og hafði ekki undirbúið hann fyrir það með neinum hætti. Ég tel að stjórnarþingmenn eigi þann rétt og þurfi stundum að beita honum. Ég minni hv. þm. Illuga Gunnarsson á það að ég þurfti að beita þeim rétti til að spyrja þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir Haarde, um gjaldþrot Seðlabankans og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Árna Mathiesen, um Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóra og viðskipti hans. Ég tel að ýmis slík tilefni geti verið til þess að stjórnarþingmenn þurfi að veita aðhald héðan úr salnum. Ég vísa því á bug sem hreinni firru að það eigi að svipta þá þeim rétti vegna þess að hv. þm. Illuga Gunnarsson (Forseti hringir.) langi oftar í ræðustólinn en hann fer nú þegar.