138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

Afbrigði um dagskrármál.

[13:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um að ræða frumvarp til laga um breyting á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt. Tilgangur þessa frumvarps er að bregðast tímabundið við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna þess samdráttar sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Um er að ræða einhvers konar greiðsluaðlögun fyrir fyrirtæki í vanda.

Sjálfstæðisflokkurinn mun veita þessu frumvarpi brautargengi. Ætlunin er að klára það í dag þannig að það geti orðið að lögum undir lok dagsins. Þetta er eitt af þeim málum sem ég ætla að sé góð samstaða um á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og það er sjálfsagt mál að við veitum öll þau afbrigði og alla þá aðstoð sem þarf til að gera akkúrat svona mál að lögum. Þetta skiptir máli fyrir fyrirtækin í landinu, fyrir þau fyrirtæki sem eiga í greiðsluerfiðleikum, og því segi ég já við því að veita þetta afbrigði.