138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Það er mikið talað um samstöðu hérna og ég tek undir það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði, við þurfum að fara að sjá samstöðu hérna í reynd en ekki bara í orði, á borði en ekki bara í orði.

Ég vil gjarnan fá að ræða eitt ákveðið mál sem ég held að við ættum að geta náð samstöðu um, lán til heimilanna, skuldastöðu heimilanna. Það hefur gengið mjög erfiðlega fyrir okkur þingmenn að fá nákvæmar upplýsingar um það hversu mikið hefur verið afskrifað af lánunum milli gömlu og nýju bankanna. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið úr skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir að reglustika var borin á ákveðið graf þar virðast niðurfærslur á lánum til heimilanna vera allt að 600 milljarðar kr.

Mig langar til að lesa, með leyfi forseta, pistil eftir Sölva Tryggvason fjölmiðlamann þar sem hann segir:

„Þessar afskriftir skipta tugum prósenta. Engu að síður á að gera allt til að murka hverja einustu krónu inn aftur. Meðal annars vegna þess að mikið af öðrum eignum bankanna eru ónýtar. Bréf í félögum sem eru rústir einar og fleira sem ekki mun skila miklu til baka. Öruggustu eignirnar eru fasteignalán. Það er betra fyrir bankana að taka eignirnar til sín ef fólk getur ekki borgað, heldur en að afskrifa verulega af lánunum.

Langstærstur hluti höfuðstólslækkunar á fasteignalánum sem almenningi stendur til boða fjármagnar sig sjálfur. Það er í raun ekki um neina lækkun að ræða fyrir bankann heldur einungis um breytingu á formi greiðslustreymis til hans, minna núna — meira seinna.

[…]

Þannig að út frá peningalegu sjónarmiði bankanna er það vel skiljanlegt að afskriftunum af lánasöfnunum hafi ekki verið skilað til almennings.“

Þeir eru að gæta sinna hagsmuna. Við vorum hins vegar kosin hingað til þess að gæta hagsmuna almennings. Hvernig í ósköpunum eigum við að geta tryggt það að afskriftir upp á 600 milljarða kr. skili sér í raun til heimilanna? Hvernig ætlum við að fara að því? Hvernig ætlum við að koma okkur saman um raunveruleg skuldaúrræði fyrir heimilin? Ég mundi gjarnan vilja ef það væri möguleiki að hv. þm. Lilja Mósesdóttir sem hefur einmitt talað fyrir leiðréttingu á skuldum heimilanna (Forseti hringir.) svaraði þessu. Hvenær er ætlunin að koma með þessar tillögur til úrbóta fyrir skuldug heimili? (Forseti hringir.) Hvernig ætlum við að tryggja þessa sanngirni og jafnræði fyrir alla á (Forseti hringir.) Íslandi?