138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:13]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er magnað að hlusta á ræðu eins og hjá hv. þingmanni rétt áðan, sem virðist engan veginn hafa áttað sig á því að hér hrundi allt saman fyrir rúmu ári síðan. Hv. þingmaður virðist heldur ekki hafa áttað sig á því að hér er bullandi gjaldeyriskreppa og hér er í raun og veru tvíburakreppa, fjármálakreppa og gjaldeyriskreppa. (Gripið fram í.) Allt þetta er stóra vandamálið í íslensku (Gripið fram í.) samfélagi, virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson komist að á eftir svo hann leyfi mér að tala.

Það er algert undirstöðuatriði að reyna að klára þessi mál og gera það í samstöðu. Stjórnarandstaðan, eins og kom fram á iðnþingi í síðustu viku, þvælist fyrir þessum verkefnum. Það kom réttilega fram hjá stórum atvinnurekanda hér í landi.

Ég ætla að fara yfir helstu verkefnin sem eru á borðinu hjá okkur í iðnaðarráðuneytinu. Þar leggjum við mjög mikla áherslu á að vinna bug á því atvinnuleysi, því atvinnuleysisböli sem við búum við. Verkefnin eru fjölmörg og ríkisstjórnin setur atvinnulífið og rektrarumhverfi atvinnulífsins í algeran forgang bæði með almennum og sértækum aðgerðum. Veigamesta almenna aðgerðin er auðvitað að tryggja framgang áætlunarinnar um endurreisn atvinnulífsins sem við lögðum af stað í með Sjálfstæðisflokknum þegar við vorum með honum í ríkisstjórn, en Sjálfstæðisflokkurinn þvælist nú fyrir þar. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þetta er stórt mál. Sem betur fer er gríðarlegur endurnýjunarþróttur í íslensku atvinnulífi. Upplýsingar um ný störf sem eru að verða til í nýjum greinum, eins og hátækni- og nýsköpunarfyrirtækjum og hjá skapandi greinum, gefa góða vísbendingu um einmitt þetta. Tölvuleikjaiðnaðurinn, sem er ný atvinnugrein á Íslandi, hefur vaxið hratt bæði í veltu og mannafla. Nú eru að verða til hundruð starfa og hafa orðið til á síðustu mánuðum á þessu sviði, ég gæti talið í fljótu bragði upp meira en 500 slík störf. Þessi þróun heldur bara áfram. (TÞH: Það eru 1.500 manns ...) Það er vegna þess það er engin ein patentlausn, við þurfum margar fjölbreyttar lausnir á þessum vanda. (Gripið fram í.) Það verða ekki til 15 þúsund störf í einum geira og það veit hv. þingmaður. En þessi rúmlega 500 störf eru svo sannarlega vel þegin hjá því fólki sem þarna starfar.

Sama vísbending birtist í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands, en þar fjölgar störfum í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi um 14% á einu ári. Að jafnaði fækkaði störfum um 5% á sama tíma. Þarna sjáum við skýra vísbendingu. Við erum nú að vinna í því að taka saman þessar tölur m.a. með Samtökum iðnaðarins og Hagstofunni.

Hjá ríkisstjórninni er jafnframt farin af stað vinna til að auka yfirsýn yfir aðgerðir ráðuneyta, stofnana, aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóða í atvinnumálum til að greiða fyrir framgangi fjárfestingarverkefna.

Hér eru stór verkefni á borðinu sem vissulega hefur verið vitnað til og eru í stöðugleikasáttmálanum. Eitt af þeim er t.d. Búðarhálsvirkjun en Landsvirkjun tók nýverið ákvörðun um að halda áætlun á þeirri framkvæmd með því að bjóða fyrsta hluta hennar út, sem hefði verið unninn í sumar þó að allt verkefnið hefði farið í útboð. Er það vel og þar munu 30–40 manns fá störf í sumar við jarðvegsframkvæmdir.

Í Helguvík eru engar hindranir á borðinu af hálfu ríkisins, engar. Það er ekkert í stjórnsýslunni sem stoppar þá framkvæmd. Hins vegar ríkir nú ákveðin óvissa um framgang þess verkefnis eftir að Orkuveita Reykjavíkur, sem stýrt er af félögum hv. þingmanns, skrifaði undir samningsramma um orku frá fyrirhugaðri Hverahlíðarvirkjun til annars aðila en Helguvíkur. (Gripið fram í.) Þetta er bara staðreynd. Gert hafði verið ráð fyrir því að orka frá Hverahlíð færi til uppbyggingar II. áfanga álversins í Helguvík. Það væri áhugavert að heyra ef hv. þingmaður tæki samtal við félaga sína sem stýra Orkuveitu Reykjavíkur og óskaði eftir skýringum á þessu. (Gripið fram í: Hvað með Húsavík?) Það símtal gæti verið áhugavert fyrir okkur hin. (Gripið fram í: Hvað með Húsavík?)

Virðulegi forseti. Ég og iðnaðarráðherra höfum undirritað viljayfirlýsingu við þrjú sveitarfélög í Þingeyjarsýslu um aðgerðir til að stuðla að atvinnuuppbyggingu sem byggir á nýtingu jarðvarma á svæðinu. Það er mikill þungi í því verkefni og þar er mikil orka sem þarf að komast í vinnu í þágu atvinnuuppbyggingar á svæðinu og líka í þágu þjóðarbúsins. Við leggjum á það mikla áherslu. Eins eru í bígerð gagnaver og kísilmálmvinnslur í Ölfusi og Helguvík. Sömuleiðis erum við að vinna að ívilnanafrumvarpi sem tryggir hingað fjárfestingu og að við séum samkeppnishæf. Unnið er að orkustefnu, sóknaráætlun 20/20, framkvæmdasjóði ferðaþjónustunnar og verkefnum á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu. Svo mætti lengi telja. Ótal verkefnum er ætlað að standa (Forseti hringir.) að uppbyggingu fjölbreyttra starfa vegna þess að það er engin (Forseti hringir.) patentlausn á þessum vanda. Við verðum að standa saman um þau mörgu, fjölbreyttu verkefni sem eiga að skapa mörg (Forseti hringir.) fjölbreytt störf sem við þurfum á að halda.