138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Atvinnuuppbygging undanfarinna ára hefur verið mjög einsleit og hefur helst byggst á risaframkvæmdum í virkjana- og stóriðjuframkvæmdum. Sýningin á Draumalandinu í sjónvarpinu núna á sunnudaginn rifjaði upp hve miklu var fórnað með náttúruspjöllum og gífurlegum fjármunum var kostað til, en uppskeran varð ekki sú sem reiknað var með í atvinnuuppbyggingu og styrkingu byggða.

Stóriðjuframkvæmdir hafa verið töfralausnarorðið í munni þeirra sem ráðið hafa ferðinni í atvinnusköpun landsmanna. Síðan var það fjármálageirinn sem þandist út eins og óskapnaður og sprakk síðan framan í þjóðina með tilheyrandi hörmungum. (Gripið fram í.) Þenslan og ofvöxturinn í byggingargeiranum á suðvesturhorninu var líka tímasprengja sem sprakk. Afleiðingar þessarar atvinnustefnu erum við að glíma við í dag ásamt því að reyna að endurmóta nýtt hagkerfi á heilbrigðari grunni.

Hvernig atvinnustefnu viljum við sjá til framtíðar? Hvað höfum við lært af hruninu? Ætlum við að æða áfram blindandi sömu götuna? Í þágu hverra væri það? Ekki almennings í þessu landi. Eða ætlum við að læra af þessari dýrkeyptu reynslu og setja ekki öll eggin í sömu körfuna heldur beina uppbyggingu og stuðningi stjórnvalda til fjölbreytni í atvinnulífi þar sem sérstaða landsins er í hávegum höfð og lögð hefur verið áhersla á sjálfbært samfélag og þau miklu tækifæri sem liggja í menntun þjóðarinnar og sköpunarkrafti sem birst hefur í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum þar sem mikill kraftur hefur verið leystur úr læðingi eftir stóriðjuþenslu undanfarinna ára?

Það er okkur mjög mikilvægt að geta komið í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja og þær miklu hörmungar sem því fylgja. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru okkur mjög mikilvæg í atvinnusköpun næstu árin. Þó að við horfum fram á ógnanir og samdrátt í atvinnulífinu höfum við fjölda tækifæra (Forseti hringir.) og með því fólki sem vinnur af krafti að nýsköpun í atvinnulífinu ætla stjórnvöld að vinna.