138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:51]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um fjölmiðla. Ég held að það sé að vissu leyti gott að hér sé a.m.k. búið að kortleggja markaðinn og slíkt hvað það varðar og fara í gegnum þá löggjöf sem snýr að fjölmiðlum. En hins vegar geld ég varhuga við því, eins og kom reyndar fram í máli hæstv. ráðherra um eignarhaldið að ekki er tekið á því í frumvarpinu, að menn sem sagt taki ekki stóru málin og útkljái þau fyrst þeir eru á annað borð að fara í þessa umræðu.

Mér finnst vera talað um breytt landslag meðal fjölmiðla og það er rétt, það hefur breyst mjög mikið. En við eigum ekki að láta lögin taka mið af því hvernig fjölmiðlarnir breytast heldur eiga lögin í rauninni að vera grunnurinn og ramminn í kringum fjölmiðlana en ekki að eiga nákvæmlega við þá fjölmiðla sem nú starfa.

Hvað varðar fjölmiðla yfirleitt þá vitum við öll sem hér erum að þeir eru gríðarlega valdamiklir og hafa oft og tíðum verið kallaðir fjórða valdið og netmiðlarnir fimmta valdið. Það verður að fara varlega í allri löggjöf hvað þetta varðar. Það má ekki setja þeim of þröngan ramma og ekki má vera of rík tilhneiging til að setja ramma um hvað þeir eiga að fjalla um eða annað slíkt. Ég held að það sé of mikið inngrip af hálfu löggjafarvaldsins.

Í því frumvarpi sem við ræðum er verið að leggja til að sett verði á fót svokölluð Fjölmiðlastofa sem á að gegna því hlutverki að hafa eftirlit með fjölmiðlunum og þeir eiga að sækja um leyfi til Fjölmiðlastofu og gefa þar ýmsar upplýsingar. En þessi Fjölmiðlastofa hefur líka mjög mikil völd. Þar er gert ráð fyrir enn einu — hvað getur maður sagt, að það eigi að skila inn svokölluðum bírókratisma, fjölmiðlaþjónustuveitendur, eins og fjölmiðlar eru kallaðir í þessu frumvarpi, eiga að skila árlegri skýrslu og fara þar yfir hlutfall myndefnis o.fl. Það er verið að koma á rosalegri skriffinnsku sem ég veit ekki hvort muni skila sínu. Mér finnst sjálfsagt að gera kröfur til fjölmiðla og þeir hafa svo sannarlega miklu ábyrgðarhlutverki að gegna. En menn verða að passa sig hversu langt þeir ganga í þeim efnum.

Frumvarpið er eins og áður hefur komið fram tugir greina og er hátt á fjórða hundrað blaðsíður. Menn hafa því kannski ekki alveg fengið þann tíma til að kynna sér frumvarpið í þaula en það er mjög mikilvægt að farið verði ítarlega yfir hverja grein fyrir sig því að hér er verið að gera mjög miklar breytingar á fjölmiðlalandslaginu sem við búum við. Þar á meðal er verið að setja ýmis skilyrði, bæði hvað varðar réttindi og skyldur. Einnig er verið að setja á stofnun sem á að fylgjast með fjölmiðlum, m.a. auglýsingum, sem eru kallaðar í þessu frumvarpi viðskiptaorðsendingar, og duldar viðskiptaorðsendingar eru óheimilar, sem sagt, auglýsingar sem eru ekki settar í þann búning, eða ég skil það þannig, að þeim sé einhvern veginn beint til að hafa áhrif en kannski ekki undir réttu nafni. Gert er ráð fyrir að Fjölmiðlastofa fylgist með þessu þannig að mér sýnist að verið sé að búa til mjög öflugt eftirlitsapparat með fjölmiðlum og ég velti því fyrir mér hverjum ber að dæma eða úrskurða í þessum málum. Svo er líka gert ráð fyrir að hægt sé að sekta og Fjölmiðlastofa hafi dagsektarúrræði.

Nauðsynlegt er að benda á að með frumvarpinu er verið að leggja til að sett verði á fót Fjölmiðlastofa sem er ekki gert ráð fyrir á fjárlögum. Mér finnst það vera ótækt að við séum að fjalla um stofu, nýtt ríkisapparat og stækka opinbera geirann enn frekar. Við erum með um 225 stofnanir. Hérna er lagt til að bætt yrði við einni nýrri. Í gær var líka lagt til að bætt verði einni nýrri við þannig að við erum enn þá, eða ríkisstjórnin, á fullu að stækka opinbera geirann á meðan einkaaðilar og skattgreiðendur fá sífellt minna af sinni eigin köku eða því sem þeir vinna sér inn fyrir. Skattar hafa verið hækkaðir og hér verið að leggja til aukin útgjöld. Ég held að á þessum tímapunkti höfum við ekki efni á því. Ég held að við þurfum að nýta fjármagnið í annað en ekki vera að stofna fleiri ríkisstofnanir á meðan við þurfum að horfast í augu við blóðugan niðurskurð, sem þessi ríkisstjórn hefur reyndar ekki haft getu í að fara í.

Þetta er alls ekki alslæmt heldur koma líka margir góðir hlutir fram í frumvarpinu. Þarna er verið að ítreka eða styrkja vernd heimildarmanna sem ég held að sé mjög mikilvægt fyrir fjölmiðlamenn, þ.e. heimildarmenn, að þeir geti treyst því að fjölmiðlamenn fari með upplýsingarnar frá heimildarmönnum og að þeir þurfi ekki að gefa upp heimildarmenn sína. Það er mjög gott mál.

Ég þarf örugglega eins og flestir aðrir að fara ofan í frumvarpið sem hér liggur fyrir og kynna mér það mun betur því að þetta er flókið og stórt mál sem verður ekki afgreitt í dag heldur fer það til hv. menntamálanefndar sem mun fjalla um það frekar. Ég vonast til að þar verði ræddar m.a. breytingar og hugsanlegar tillögur um eignarhald fjölmiðla.

Ég vil einnig og vonast til þess að þar verði rætt um Fjölmiðlastofuna, hvort menn séu tilbúnir í það í þessu árferði að setja á fót nýja ríkisstofnun sem ekki er gert ráð fyrir á fjárlögum og í þriðja lagi set ég fyrirvara við kaflann um réttindi og skyldur fjölmiðlaþjónustuveitenda, sem eru fjölmiðlar, þar sem gert er ráð fyrir ákveðinni efnisumfjöllun sem mér skildist á hæstv. menntamálaráðherra að væri að kröfu Evrópusambandsins, að hér ætti ákveðið tiltekið hlutfall af efni að vera frá Evrópu. Ég held að við ættum að leyfa fjölmiðlum að meta hvaða efni þeir hafa til umfjöllunar. Fyrst við erum á annað borð með ríkisfjölmiðil þá finnst mér að við getum kannski skipt okkur af því um hvað er fjallað þar. Menn gera það. Það er pólitísk stjórn þar yfir þrátt fyrir að faglegi þátturinn sé á höndum starfsmanna. Mér finnst ekki hægt að menn séu að skipta sér af því hvað menn velja til að fjalla um í öðrum fjölmiðlum og ég held að þetta sé aðeins of langt seilst í því efni.

Annars vil ég þakka fyrir að frumvarp þetta er komið fram og ég vona að það fái málefnalega umfjöllun og tekið verði á þessum álitaefnum sem hér hafa verið rædd í hv. menntamálanefnd.