138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

445. mál
[15:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Frumvarpið gengur út á það að leggja til að kröfur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda verði betur tryggðar við gjaldþrotaskipti en nú er. Með vísan til þeirra breytinga sem orðið hafa í íslensku efnahagslífi á síðustu missirum, hafa stjórnvöld gripið til margþættra aðgerða til að koma til móts við aðila til að standa skil á skuldum við ríkissjóð. Frumvarp sem er hér næst á eftir er m.a. liður í því. Einnig hafa heimildir innheimtumanna verið rýmkaðar til að veita meira svigrúm við innheimtu. Verði sömuleiðis að lögum frumvarp það sem hér er á dagskrá á eftir um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, er verulega komið til móts við atvinnulífið að þessu leyti, að auðvelda því að gera upp ógreidd gjöld af þessu tagi.

Jafnframt þykir því eðlilegt að gera ráðstafanir til tryggja betur kröfur ríkissjóðs við gjaldþrotaskipti. Frumvarp þetta leggur til að lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatt verði breytt á þann veg að kröfur samkvæmt þeim njóti forgangs við skipti á þrotabúum og skuldafrágöngubúum og verði skipað í skuldaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Þannig verður þetta fært til þess horfs sem það var, mun hafa verið hér á árum áður og fram á síðasta áratug síðustu aldar þegar þessu mun hafa verið breytt. Í ljósi aðstæðna er lagt til að þessi skipan komist á til að tryggja hagsmuni ríkisins í slíkum tilvikum.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu, frú forseti.