138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

445. mál
[15:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Best væri náttúrlega ef við gætum bara leiðrétt efnahagshrunið og það hefði aldrei orðið, það væri best. En það er víst ekki í boði heldur verðum við að takast á við það.

Varðandi það að skattamál voru ekki rædd í þaula á þingi fyrir jólin þá hygg ég að það hafi verið í höndum Alþingis sjálfs hvernig það varði tíma sínum og Alþingi kaus að ræða annað mál talsvert mikið og ég er ekki viss um að það hafi verið meiri hlutinn sem hafði mest áhrif þar á.

Í öðru lagi um endurskoðun á skattamálum þá get ég glatt hv. þingmann með því að það er einmitt verið að hrinda úr vör núna viðamikilli heildstæðri úttekt á skattkerfinu og æskilegri þróun þess til frambúðar. Verkefnisstjórn er komin af stað og ætlunin er að óska eftir fulltrúum í breiðan samráðshóp um það mál, þar á meðal frá öllum þingflokkum. Stjórnarandstaðan getur því mjög tekið gleði sína í því að hið þverpólitíska samráð verður þá ástundað í þeim efnum, enda sjálfsagt mál þegar í hlut á verkefni af því tagi að fara yfir skattkerfið í heild sinni með langtímaþróun þess í huga.

Varðandi upplýsingar um hversu miklar skattskuldir eru vegna gjaldþrotameðferðar og eins og hún stendur núna verður að sjálfsögðu að hafa í huga að frumvarpinu er ekki ætlað að taka á því heldur framtíðinni og gagnvart því sem orðið er gildir hin almenna kröfuröð sem verið hefur. Í frumvarpinu sem er hér næst á eftir á dagskrá, ef hv. þingmaður vill hlusta, eru þær upplýsingar reiddar fram enda kemur fram í frumvörpunum að þau fylgjast að. Í þriðja dagskrármáli eru töflur um þetta og þar kemur fram að skattskuldir í atvinnurekstri miðað við 1. janúar 2010 eru samtals upp á tæpar 40 milljarðar kr. Hvað af því innheimtist er auðvitað ómögulegt að segja og þar gildir þá hin almenna kröfuröð sem verið hefur en ekki forgangurinn sem nú á að innleiða til að tryggja betur hagsmuni ríkisins á komandi árum. Til að upplýsa það brást minni mitt mér aðeins, þessu mun hafa verið breytt árið 1989 sem nú er verið að færa aftur til sama vegar.