138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að verða dálítið einkennileg umræða um alvarlega stöðu atvinnulífsins þegar menn eru farnir að ræða um námskeið í glaðværð og framkomu og fleira í þeim efnum. Ég ætla svo sem ekki að sitja þau námskeið með þeim félögum Steingrími J. og Tryggva Þór Herbertssyni, hæstv. ráðherra og hv. þingmanni. Það sem mig langar aðeins að ræða frekar við hæstv. ráðherra eru undirboð. Það væri mjög óeðlilegt ef það væri ekki rætt um lág boð í sölum Alþingis í verktakavinnu, í byggingariðnaði og vegagerð, vegna þess að hér úti fyrir eru menn í þessum bransa að ræða um að þetta sé mjög viðvarandi vandamál. Ég er svo sem ekki með neina patentlausn á þessum málum en ef við horfum á útboð þar sem menn bjóða í fyrir fjármuni sem duga varla fyrir efniskaupum, hvað þá vinnuframlagi, hljótum við að vera komin á einhverjar villigötur. Ef þetta eru fyrirtæki á vegum bankanna, kannski sem bankarnir eiga, erum við kannski komin í einhverja vafasama stöðu svo ég kveði ekki fastar að orði. Það eru þannig kröfur gerðar á hendur atvinnulífinu og fyrirtækjum í dag að þau geti sýnt fram á að þau séu rekstrarhæf. Hvað þýðir það? Jú, að þau hafi verkefni fram undan næstu mánuði og út árið og þá fá þau fyrirgreiðslu í bankanum. Ef menn bjóða hins vegar í með eðlilegum hætti fá þeir ekki eitt einasta verk orðið í dag. Þeir fá þá ekki fyrirgreiðslu í viðkomandi banka og hvert leiðir þessi atburðarás okkur ef þetta heldur svona áfram? Mér finnst í raun og veru eðlilegt að við ræðum þetta hér. Ég heyrði að hæstv. ráðherra hefur ekki lausnir frekar en ég, en mér þótti miður að heyra að hæstv. ráðherra hefði ekki íhugað þessi mál eða skoðað þau sérstaklega. Ég tel að hér sé um mjög stórt mein að ræða í þeirri uppbyggingu sem fram undan er í íslensku atvinnulífi. Það veitir svo sannarlega ekki af betrumbótum. Þess vegna held ég að sú staða sem er (Forseti hringir.) uppi núna á markaði sé með öllu óásættanleg.