138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa ákveðnum áhyggjum af stöðu námsmanna í sumar, framfærslu námsmanna í námshléi yfir sumartímann. Eins og þingheimur veit var ákveðið að námsmenn skyldu yfir sumartímann ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Ég studdi þá breytingu á sínum tíma, nú fyrir jól, en með þeim fyrirvara að gengið yrði í það af röggsemi að koma algjörlega í veg fyrir að námsmenn yrðu framfærslulausir yfir sumartímann. Og nú hef ég vissar áhyggjur af þessu máli. Ég óttast að námsmenn lendi á milli ráðuneyta, lendi á milli skips og bryggju og það sé hugsanlega hafinn einhver dans á milli menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis og sveitarfélaganna um hver eigi að framfleyta námsmönnum sem fá ekki vinnu yfir sumartímann og geta þá jafnvel heldur ekki sótt námskeið yfir sumartímann.

Ég beini einfaldlega þeirri kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún taki á þessu máli af röggsemi. Ég lít svo á að í svona úrlausnarefni sem varðar nokkuð stóran hóp fólks, fólks með fjölskyldur, birtist einn prófsteinn af mörgum á það hvort í landinu sé umrædd velferðarstjórn. Er þetta velferðarstjórn? Getur hún tekist á við svona vandamál?

Hér var líka tæpt á öðru sem ríkisstjórninni hefur gengið ansi brösuglega að takast á við og það er að koma svigrúmi bankanna til almennings í formi afskrifta. Það hefur gengið mjög brösuglega og við framsóknarmenn höfum talað fyrir því núna í meira en ár án þess að aðgerðir hafi verið raunverulegar.

Spurningin blasir við: Er þetta velferðarstjórn? Spurningin blasir við í stóru sem smáu: Tekst henni að leysa vanda námsmanna í sumar? Tekst henni að leysa skuldavanda heimilanna? Ég vona að henni takist það. Ég vona að velferðarsjónarmið verði höfð (Forseti hringir.) að leiðarljósi við stjórn landsins þannig að ég segi bara: Klúðrið þessu ekki.