138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni starfsemi ECA, þ.e. fyrirhugaða starfsemi fyrirtækisins á Keflavíkurflugvelli. Þessi umræða hefur öll verið slitin úr samhengi, það hefur verið unnið að undirbúningi þessa máls í langan tíma, í fullu samráði við ríkisstjórn Íslands og með þátttöku stofnana á vegum hennar. Þetta fyrirtæki mun eingöngu vinna í friðsamlegum tilgangi og það mun aldrei taka þátt í hernaðaraðgerðum, enda starfa þar ekki hermenn og hvorki munu þotur þeirra bera vopn né starfsmenn. Þetta fyrirtæki mun eingöngu vinna með ríkisstjórnum þeirra landa sem eru samþykkt af Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu, auk þess sem þau munu þurfa samþykki íslenskra stjórnvalda vegna íslenskra flugrekstrarleyfa.

Starfsemin hér á landi mun snúast um viðhald á þeim búnaði sem fyrirtækið hefur og þjálfun starfsmanna að einhverju leyti. Því mun fylgja mikil uppbygging og mikil atvinnusköpun. Þetta mun hafa í för með sér störf fyrir sennilega á þriðja hundrað manns. Þar af má reikna með að þurfa að ráða 60–100 íslenska flugvirkja til starfa hjá þessu fyrirtæki til að sinna viðhaldi á flugflota þeirra. Þetta mun auka umsvif mikið á Keflavíkurflugvelli og renna enn frekari stoðum undir starfsemi vallarins.

Það eru mér mikil vonbrigði, virðulegi forseti, að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir í gær hefur samgönguráðherra ekki samþykkt að hafa utandagskrárumræðu um þetta mál. Hann bar við önnum í störfum sínum vegna þess hve mikið dagurinn í gær var tekinn undir lagasetningu á verkfall flugvirkja. Ég held að þess séu ekki mörg fordæmi að ráðherra í ríkisstjórn skorist þannig undan því að taka þátt í umræðu um svo mikilvægt mál. Ég held að menn ættu að kynna sér þetta mál (Forseti hringir.) betur og þá starfsemi sem þarna er fyrirhuguð. Hún hefur ekkert nema jákvæð áhrif á íslenskt samfélag.