138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[14:36]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég verð nú að byrja á að leiðrétta hv. þm. Þór Saari, það eru engir sjálfstæðismenn á þessu frumvarpi.

Ég á lögheimili í Suðvesturkjördæmi, Kraganum svokallaða. Íbúar þar, sem og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, hafa skertan kosningarrétt í samanburði við aðra landsmenn. Það fyrirkomulag stangast hreinlega á við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og hljótum við því öll að fagna frumvarpinu, jafnvel sjálfstæðismenn. Ég fagna því einnig að lagt er til að þröskuldurinn inn á þingið verði lækkaður úr 5% niður í 3%. Vegna hins háa þröskuldar eiga smærri framboð mjög erfitt uppdráttar og margir leggja ekki í að bjóða fram við þessi skilyrði. Í þessum háa þröskuldi felst því mikil þöggun því að mun fleiri en fjórflokkurinn hafa margt gott til málanna að leggja. Ég trúi því að með því að lækka þröskuldinn fái fleiri raddir að heyrast og í því felast lýðræðisumbætur og gróska í samfélagsmálum. Ég tel að allir þingmenn eigi að vera þingmenn allra landsmanna. Ég held að hið svokallaða kjördæmapot, sem felst í því að þingmenn landsbyggðarinnar veiti fé heim í hérað, minnki og fjárframlög til ákveðinna verkefna og þau verði metin með faglegri og málefnalegri hætti en áður, nái frumvarpið fram að ganga.

Frú forseti. Mér finnst í raun svo sjálfsagt, nú þegar fyrsti tugur 21. aldarinnar hefur runnið sitt skeið á enda, að við förum í þessar lýðræðisumbætur. Og ekki bara það að gera landið að einu kjördæmi og jafna vægi atkvæða heldur einnig að ráðast í fleiri lýðræðisumbætur. Ég vil stjórnlagaþing sem hefði raunverulegt vægi, þjóðaratkvæðagreiðslur í meira mæli og persónukjör þar sem hægt er að velja á milli lista.

Nú eru umbrotatímar og einmitt nú eigum við að taka kerfið til róttækrar endurskoðunar. Breytingarnar þurfa að koma fram hratt og sársaukafullt. Núna er einmitt rétti tíminn til breytinga.

Ég styð þetta mál en eins og komið hefur fram í greinargerð hefur tillagan verið borin fram af og til frá 1927. Alþingi virðist því ófært um að breyta þessu vegna þess að slíkar breytingar stangast á við hagsmuni margra þingmanna. Því er svo mikilvægt að við fáum stjórnlagaþing sem fyrst og það á ekki að vera ráðgefandi heldur alvöru. Mikilvægt er að tryggja þátttöku almennings í því og lágmarka áhrif stjórnvalda og stjórnmálaflokka eins og frekast er kostur.