138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Miðað við fréttir dagsins í dag og í gær er stöðugleikasáttmálinn í uppnámi þar sem Samtök atvinnulífsins líta svo á að ríkisstjórnin hafi sagt upp sáttmálanum með þeirri samþykkt sem varð á Alþingi í gær um skötuselsfrumvarpið svokallaða. Þetta er mjög alvarleg staða og af henni höfum við væntanlega öll áhyggjur. Því er rétt að fá fram hjá hæstv. forsætisráðherra til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa vegna þessarar stöðu.

Forsætisráðherra sagði í þinginu í gær að sér kæmi á óvart ef stöðugleikasáttmálanum yrði sagt upp út af skötuselsmálinu, en undrun hæstv. forsætisráðherra kemur mér mjög á óvart. Hvernig getur maður verið undrandi á staðreyndum sem blasa við og maður hefur verið margupplýstur um? Þetta einfaldlega skil ég ekki. Þessi undrun hæstv. forsætisráðherra kom mér og öðrum sem fylgst hafa með framgangi málsins á undanförnum mánuðum mjög á óvart.

Þolinmæði og þrautseigja ASÍ og SA við að reyna að halda sáttmálann hefur hins vegar vakið mikla athygli.

Kyrrstöðusáttmálinn, eins og hann hefur verið kallaður af aðilum vinnumarkaðarins undanfarna mánuði, felur það einmitt í sér að ástandið hér á landi hefur falið í sér kyrrstöðu á grundvelli þessa sáttmála. ASÍ hefur gefið út bækling þar sem fram kemur að ASÍ krefst þess að félagsmenn þeirra fái vinnu. Samtök atvinnulífsins hafa gefið út aðgerðaáætlun um hvernig þeir ætla sér að koma atvinnumálunum hér af stað. Það er algjörlega ljóst að aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt sig alla fram.

Það vekur mikla athygli að miðstjórn ASÍ ályktaði í febrúar og lýsti áhyggjum, með leyfi forseta, „af þeirri miklu óvissu sem ríkir um framvindu íslensks efnahags- og atvinnulífs. […]

Þá gagnrýnir miðstjórn ASÍ seinagang stjórnvalda við að taka nauðsynlegar ákvarðanir sem snúa að atvinnuuppbyggingu og endurreisn efnahagslífsins.“

Það er því ljóst að ekki eingöngu það frumvarp sem var samþykkt hér í gær veldur þessum óróleika í kringum stöðugleikasáttmálann, margt annað kemur til og skötuselurinn í gær var einfaldlega dropinn sem fyllti mælinn.

Öllum er ljóst að Samtök atvinnulífsins gerðu fyrirvara við stöðugleikasáttmálann þar sem fram kom gagnvart framlengingu kjarasamninga að endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins átti að vera í þeim sáttafarvegi sem lagt hefur verið upp með. Þetta er bókun sem SA hefur lagt fram um stöðugleikasáttmálann og hún er öllum kunnug, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra. En blekið var varla þornað á yfirlýsingu aðilanna að samningnum í október þegar ráðherra lagði fram í þinginu þetta frumvarp um skötuselinn. Það kemur því á óvart ef menn segjast vera undrandi á því að Samtök atvinnulífsins líti þannig á að ríkisstjórnin hafi sagt sáttmálanum upp gagnvart þeim.

Hvað hefur ASÍ sem er einnig aðili að þessum samningi sagt? Það sagði um skötuselsfrumvarpið að frumvarp ríkisstjórnarinnar væri ekki til þess fallið að skapa sátt og mælti með því að afgreiðslu málsins yrði frestað í þinginu þangað til sáttameðferð yrði lokið.

Fjölmörg önnur atriði í þessum sáttmála hafa ekki verið uppfyllt. Það er hægt að telja þau upp í löngu máli en ég hef ekki mikinn tíma og ætla ekki að gera það. Hins vegar vega þar þyngst málin um stórframkvæmdir. Er eitthvað að frétta þar? Er eitthvað að frétta af Helguvík, gagnaverinu sem Verne Holdings ætlar sér að byggja hér? Hvernig gengur með virkjanir í Þjórsá og hvernig gengur með Þeistareyki?

Það er ekkert að frétta og það á ekki að koma neinum á óvart að Samtök atvinnulífsins líti þannig á að ríkisstjórnin standi ekki við þennan sáttmála.

Ýmsar spurningar vakna í þessu máli. Hvernig ætlar verkstjóri ríkisstjórnarinnar að leiða þetta mál til lykta? Góður leiðtogi hlustar á samstarfsaðila sína og sýnir ekki óbilgirni. Sú stjórnunartaktík verkstjóra ríkisstjórnarinnar að stappa niður fótum og loka augunum fyrir staðreyndum sem við öllum blasa er gengin sér til húðar.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru lausir í haust. Sá tilgangur stöðugleikasáttmálans að skapa ró þannig að hér mundi skapast svigrúm til að endurreisa efnahaginn er nú í hættu. Þessum friði hefur verið teflt í tvísýnu sem er alvarlegt mál. Aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið ríkisstjórninni falleinkunn. Er ekki rétt að ríkisstjórnin fari að viðurkenna að hún ræður ekki við þetta verkefni?

Á þessum tímum sem við lifum í dag er mikilvægt að við sem hér störfum sameinumst um þau verkefni sem við getum unnið að saman. Þjóðin þarf á (Forseti hringir.) leiðtoga að halda sem sameinar en sundrar ekki.