138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er hægt að taka undir þau orð hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar að það er mikilvægt að eyða tortryggni og þeim misbrestum sem því miður hafa verið of margir á umliðnum árum. Við þurfum að horfa til fortíðar um leið og við reynum að byggja upp til framtíðar. Við verðum að átta okkur á því að þær fjárhæðir sem voru á sínum tíma reiddar fram — um er að ræða fimm ára tímabil — voru að öllu leyti í samræmi við lög og reglur þess tíma. Ég minni á þau orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar á þeim tíma þegar í ljós kom að styrkir til Samfylkingarinnar höfðu fimmfaldast á milli ára að það væri í rauninni ekkert athugavert við það og hún sagði að upphæðirnar væru í samræmi við það sem þá var í gangi. Í rauninni er ég sammála henni hvað þetta varðar en við verðum engu að síður að draga þetta fram. Verið er að því.

Það er athyglisvert að skoða sögu um lög á stjórnmálaflokka og fjármál þeirra. Á sínum tíma, árið 2005 frekar en 2004, lögðum við í Sjálfstæðisflokknum til að banna fyrirtækjum að styrkja flokka. Allir aðrir flokkar tóku mjög illa í þessa tillögu okkar, Framsóknarflokkur, Vinstri grænir og ekki síst Samfylkingin, og neituðu þessu.

Ég vil líka setja háar fjárhæðir í samhengi við það að Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur í gegnum tíðina verið stærsti fjöldaflokkur landsins og hlutfallslega má segja að meiri fjármunir renni til annarra flokka ef miðað er við stærð flokkanna. Ég vil hins vegar draga fram og undirstrika að sumir styrkir í sögunni voru of háir. Þeir fóru úr böndum. Ég tek undir þau orð framkvæmdastjóra flokksins í gær að þetta má ekki gerast og verður ekki gert aftur. Þess vegna tókum við í forustu Sjálfstæðisflokksins þá ákvörðun fyrir ári að skila þessum háu styrkjum til baka, til FL og þeirra sem styrktu flokkinn. Við ákváðum (Forseti hringir.) að þiggja ekki styrkina heldur skila þeim. Á sama tíma þáði Samfylkingin m.a. sömu fjárhæð frá Baugi, FL og fleiri tengdum fyrirtækjum. (Forseti hringir.) Samfylkingin ákvað að þiggja þá styrki. Ég spyr hv. þingmann: Ætlar Samfylkingin ekki að skila þeim styrkjum?