138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

dagskrár- og kvikmyndagerð hjá Ríkisútvarpinu.

361. mál
[14:12]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið einhver lenska að pota í RÚV upp á síðkastið, en ég vil sérstaklega fá að hrósa bæði starfsmönnum RÚV og stjórnendum fyrir að hafa staðið að mjög miklum sparnaði á erfiðum tímum án þess að dagskrárgerðin hafi liðið um of fyrir það. Mér finnst það vera þakkarvert.

Ég hef talsverðar efasemdir um mikinn niðurskurð til kvikmyndagerðar af því að sýnt hefur verið fram á að sú framleiðsla skilar peningum margfalt til baka og því efast ég mjög um sparnað á því sviði.

Mig langar að spyrja svolítið út í stefnu RÚV af því að 45% af efni þess er íslenskt. Síðan er bandarískt efni í öðru sæti með 30%. Það er gríðarlega há tala, finnst mér, virðulegur forseti. Breskt efni er 11% og norrænt efni fyrir utan íslenskt er einungis 7%. Mér finnst þetta ótrúlega lág tala. Þar af er danskt efni tæplega 5% en hin Norðurlöndin eru með hálft til eitt prósent. Er ekki ástæða til að auka norrænt efni og auka íslenskt efni en draga úr bandarísku (Forseti hringir.) — og jafnvel bresku efni en sérstaklega bandarísku? Er ekki 30% allt of mikið af bandarísku efni í íslensku sjónvarpi?