138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

starfsstöðvar Ríkisútvarpsins.

362. mál
[14:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu en ég held að það sé líka alveg ljóst að hv. þingmenn í þessum sal eru ekki alveg á einu máli um hvernig eigi að efla fréttir af landsbyggðinni, hvort það verður gert með starfsstöðvum eða með vídeófréttamönnum, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi, eða með hinum svæðisbundnu útsendingum. Þetta er náttúrlega lýsandi að við höfum öll okkar skoðun á því hvernig hlutverkinu er best sinnt. En mestu skiptir að við sjáum marktækan árangur í að því sé sinnt, þ.e. því hlutverki RÚV að vera útvarp allra landsmanna.

Hv. þingmaður nefnir húsnæðismál og við höfum alla möguleika undir þegar við skoðum hugsanlegan sparnað. Það liggur fyrir að þetta hús er mjög stórt og hefur verið þungt í rekstri. Ég vil hins vegar líka nefna það, út frá orðum hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, að hugmyndafræðin á bak við fréttamennskuna á Suðurlandinu miðast einmitt við það að ekki sé horft til húsnæðis heldur til fréttaflutnings án húsnæðis. Hugsanlega er það nú framtíðin að miklu leyti í fréttamennsku að ekki sé fjárfest um of í steinsteypu heldur að það sé meiri hreyfanleiki.

Ég lít á það sem hlutverk okkar fyrst og fremst að sjá til þess að þessu hlutverki verði sinnt. Ég er hjartanlega sammála hv. málshefjanda og fyrirspyrjanda, þetta skiptir máli. Þriðjungur landsmanna býr utan höfuðborgarsvæðisins. Hér hefur orðið mikil samþjöppun. Það birtist að sjálfsögðu líka í því að hér eru menningarstofnanirnar, hvort sem þær heita Ríkisútvarp, Þjóðleikhús eða Sinfónía. Þær eru með höfuðstöðvar hér og ákveðin áhersla endurspeglast í því.

Ég lít hins vegar svo á að hlutverk mitt sé að fylgja þessari umræðu eftir, m.a. við endurskoðun þjónustusamnings, og tryggja að þessum sjónarmiðum sé þar gert hátt undir höfði með virkum fréttaflutningi og öðru efni af landsbyggðinni. Við sjáum að þar er jafnvel hægt að gera efni með minni tilkostnaði en hér í bænum eins og kom fram í skýrslu frá árinu 2004, sem var hér til umræðu í utandagskrárumræðum á dögunum, (Forseti hringir.) þar sem fram kom að efni í dægurmálaútvarpi var í raun ódýrara gert í svæðisstöðvunum.