138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi samhliða aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

240. mál
[15:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara örstutt koma inn í þessa umræðu og benda á að það er í sjálfu sér alveg sjálfsagt og eðlilegt að menn velti þessum hlutum upp en sérstaklega vil ég benda á að nú þegar á sér stað endurskoðun á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Fyrir ekki löngu síðan áttum við nokkrir þingmenn frá Alþingi ásamt þingmönnum úr norska Stórþinginu og færeyska Lögþinginu kost á að funda með sjávarútvegsnefnd Evrópusambandsins og fara yfir þá endurskoðun sem þar á sér stað. Það var gagnlegur fundur. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að auðvitað er horft til stefnu Íslands í sjávarútvegsmálum og þess hve vel hún hefur verið heppnuð á marga lund en þar eru líka athugasemdir við ýmsa þætti í íslensku sjávarútvegsstefnunni. Það er ekki allt sól og blíða á þeim bæ heldur er líka bent á hluti eins og frjálsa framsalið sem er gagnrýnt af hálfu þingmanna á Evrópuþinginu í sjávarútvegsnefndinni. Það er á margt að líta í þessu. (Forseti hringir.) Ég held að við hér heima getum eins og í Evrópusambandinu alveg skoðað hluti í okkar sjávarútvegsstefnu þó að aðildarviðræðurnar hafi sinn gang.