138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

417. mál
[18:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það á sér eðlilegar skýringar að fyrri hluti spurningar hv. þingmanns er úreltur. Fyrirspurnin kom fram hjá hv. þingmanni 3. mars, ef ég man rétt, og þýðingin birtist síðdegis á vef utanríkisráðuneytisins 8. mars. Einvörðungu út af númeri þingmálsins komst það ekki á dagskrá miðvikudeginum eftir það. Síðan var ég í útlöndum. En allt hefur hv. þingmaður skýrt það ákaflega vel.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður beinir til mín um það hvort tiltekinn stjórnmálaflokkur, sem vill svo til að tilheyrir ríkisstjórn með mínum flokki, geri sér grein fyrir því hvað felst í aðild eins og t.d. því að taka þurfi þátt í sameiginlegri utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópusambandsins, verði af aðild, þá get ég ekki svarað því. Ég geri ráð fyrir eins og hv. þingmaður veit að frá ákveðnum athöfnum og háttsemi þjóðar sem fylgir þeirri sameiginlegu aðild eru líka undantekningar eins og hefur komið fram tiltölulega nýlega, t.d. varðandi Írland. Ég legg til að hv. þingmaður spyrji hins vegar þá þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þessu, en þá rifjast það upp fyrir mér að þeir hafa einmitt verið spurðir að því. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson svaraði hér fyrirspurn fyrir nokkrum mánuðum undir liðnum um störf þingsins sem einmitt varðaði þetta.

Stefna ríkisstjórnarinnar er algerlega skýr og stefna Alþingis. Hún er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja niðurstöðu þeirra viðræðna í dóm þjóðarinnar. Það er ótvíræð stefna núverandi ríkisstjórnar, beggja þeirra flokka sem að henni standa.

Hv. þingmaður spyr síðan um kynninguna á skýrslu Evrópusambandsins, spyr um tvennt, hvernig eigi að kynna hana fyrir þjóðinni og hins vegar fyrir þinginu. Frá því er þá að greina, sem hefur farið fram hjá hv. þingmanni, að samstundis og þessi skýrsla kom fram, mig minnir að hún hafi komið fram á föstudegi, hafði utanríkismálanefnd samband við mig og óskaði eftir því að ég kæmi á fund nefndarinnar til að kynna hana. Það gerði ég ef ég man rétt á mánudeginum á eftir og fór nákvæmlega yfir hin ýmsu atriði, kom þar með tveimur starfsmönnum ráðuneytisins en sá sjálfur um kynninguna vegna þess að ég hafði notað helgina til að lesa þetta allt saman.

Það er ekkert í þessari skýrslu Evrópusambandsins sem kemur á óvart. Það er ekkert sem ekki hafði verið drepið á í umræðum síðasta sumar. Það er því alveg ljóst að gerð hefur verið grein fyrir þessu gagnvart utanríkismálanefnd. Samstundis og þýðingin lá fyrir var sömuleiðis helstu hagsmunasamtökum gert viðvart um það.

Ég leyni því svo ekki að ég átti von á því og mér fannst ekki óeðlilegt að hv. þingmenn mundu notfæra sér útgáfu skýrslunnar til að óska eftir umræðum utan dagskrár um skýrsluna og ýmis efni hennar. Svo varð ekki. Hins vegar hef ég svarað tveimur fyrirspurnum, einni óundirbúinni og einni undirbúinni munnlegri fyrirspurn um efni sem varðar skýrsluna.

Þessari skýrslu voru gerð mjög ítarleg skil í fjölmiðlum dagana á eftir og farið í jafnvel einstaka kafla hennar, sérstaklega þó landbúnaðarkaflann og þó enn frekar sjávarútvegskaflann. Þessir tveir kaflar eru kannski burðarkaflarnir fyrir Ísland. Það var athyglisvert að varðandi landbúnaðarkaflann var ekkert þar að finna sem ekki hafði verið rætt áður á Alþingi Íslendinga. Þar af leiðandi dreg ég þá ályktun að ekkert komi á óvart. Varðandi sjávarútvegskaflann var hins vegar ýmislegt sem kom á óvart, t.d. það að þar var sagt berum orðum að ef yrði af aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi það hafa umtalsverð áhrif á sjávarútvegsstefnu sambandsins. Þetta þótti mér merkileg yfirlýsing vegna þess að ég kýs að túlka hana þannig að Evrópusambandið geri sér grein fyrir því að til þess að hægt sé að taka Ísland inn í Evrópusambandið þannig að íslenska þjóðin fallist á það verði sambandið að taka tillit til þess hvað varðar hina sameiginlegu fiskveiðistefnu.

Athyglisvert er að í sama kafla er einmitt vakin eftirtekt á því að í grænbókinni um hina sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins segir í skýrslunni að talað sé um ákveðnar breytingar sem einmitt falla að ýmsu því sem Íslendingar hafa verið að hyggja að á síðustu árum. Þetta þótti mér ákaflega athyglisvert og jákvætt, kom mér ekki á óvart vegna þess að ég hef í gegnum samtöl mín við ýmsa kollega mína í útlöndum, embættismenn og ýmsa sérfræðinga komist að þeirri niðurstöðu að landbúnaðarmálin og sjávarútvegsmálin verði miklu minni þröskuldur varðandi samningagerðina en menn töldu áður og þar á meðal ég.