138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

rafræn sjúkraskrá.

231. mál
[18:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu og hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þetta er mjög stórt mál. Þegar ég var ráðherra tók ég þetta strax föstum tökum. Það þurfti að breyta lögum. Það var gert 1. maí 2009 eins og hæstv. ráðherra nefndi. En það var ekki aðeins að við breyttum lögunum heldur settum við á fót sérstaka nefnd, undir forustu Þorvaldar Ingvarssonar, sem tók saman hve mikið var lagt í þetta og hvað þarf að gera til að koma á samræmdri sjúkraskrá. Árið 2007 var 1.300 millj. kr. varið í þessi mál en það er mjög undir hælinn lagt hvort verið sé að vinna þetta saman og í rauninni er ekki verið að vinna þetta saman. Niðurstaða nefndar sem hann stýrði, og ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða, var að bjóða þetta út, nýta þessa fjármuni til þess að byggja þessa hluti upp. Það er margt sem þvælist fyrir, eitt eru litlar stofnanir og ýmislegt fleira en við verðum sem allra fyrst að fara í þetta og fjármunir eru settir í þetta en þeir nýtast ekki sem skyldi. Ef einhvern tíma er tækifæri þá er það núna því að nú er tækifæri fyrir hið opinbera að gera góð innkaup.