138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi heimilanna.

[10:48]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð undarleg fyrirspurn. Fyrst vegna þess að hv. þingmaður gerði að umtalsefni sérstaka skuldaaðlögun og að einungis 277 hefðu komist í gegnum hana en við hefðum bundið vonir við að það yrðu nokkur þúsund, þá er það rétt en þar er ekki við ríkisstjórnina að sakast heldur fjármálastofnanirnar sem unnið hafa of hægt í því máli. Það er auðvitað þeirra að laga það. Þess vegna leggjum við til víðtækar lagabreytingar þannig að fjármálastofnanirnar horfist þá í augu við að þær tapa af þessum kröfum ef þær drolla í meðferð skuldamála í sértækri skuldaaðlögun, það er ekki neitt upp úr því að hafa að tefja meðferð skuldamála sem brýnt er að verði tekist á við.

Á blaðamannafundinum tilvitnaða var lögð áhersla á það vegna spurninga þar um að við teldum að við værum búin að ná utan um þau atriði sem við vissum um að því leyti að við værum með löggjöf og tillögur núna um að bregðast við öllum þeim tilvikum sem við hefðum séð sem eru sérstaks eðlis, og sértækum vanda. Við vissum að við værum að taka á því. Og auðvitað erum við búin að búa til fjölþætt úrræði sem tryggja það að fólk sem býr við skuldabyrði almennt sem er meiri en sem nemur greiðslugetu fólks og veðrými eigna, geti losnað undan henni. Það var til þess sem forsætisráðherra var að vísa.

Ég sit ekki í efnahags- og skattanefnd og þekki ekki nákvæmlega hvað fólk hefur rætt þar. Ég tel þó fulla ástæðu til þess að ganga á eftir því við bankann hvernig þeir hyggjast taka á erfiðum skuldamálum. Það er auðvitað full ástæða til þess að þeir dragi ekkert af sér í því að nýta það svigrúm sem þeir kunna að hafa til að taka á erfiðum skuldamálum. Við sjáum dæmi um hitt, við sjáum dæmi um fyrirtæki sem horfast ekki með sama hætti í augu við staðreyndir eins og bankarnir þó gera. Þar eru (Forseti hringir.) sum eignarleigufyrirtækin áberandi.